Opinn kynningarfundur um fjárfestingaátak NSK

Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) verður með opinn kynningarfund um fjárfestingaátak sitt hjá Drift að Strandgötu 1 á Akureyri, fimmtudaginn 25. september nk. klukkan 12:00. Í fjárfestingaátakinu gefst sprotafyrirtækjum sem eru komin stutt á veg í sinni vegferð tækifæri á að sækja um fjárfestingu.
Í tilkynningu frá NSK er tekið fram að öll séu velkomin á kynningarfundinn til að fá frekari upplýsingar um hvernig hægt er að sækja um, hvað er til framdráttar við umsókn og annað sem getur komið að góðum notum. Fjárfestingar á frumstigi (pre-seed) hafa átt undir högg að sækja og á síðasta ári voru fjárfestingar á frumstigi með minnsta móti á meðan metþátttaka var í viðskiptahröðlum og styrkumsóknum til Tækniþróunarsjóðs.
Stefnt að fjárfestingu í 10-12 félögum
Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri NSK segir í tilkynningunni að eitt af hlutverkum NSK sé að byggja brú yfir til fjárfesta, bæði englafjárfesta og sjóða. „Með átakinu mun NSK fjárfesta í félögum með kröfu um að á móti komi að lágmarki jafnhátt mótframlag frá öðrum fjárfestum og þannig efla vitund fjárfestaumhverfisins fyrir frumstigsfjárfestingum. Átakið mun því skila að lágmarki tvöfaldri þeirri fjárfestingu sem sjóðurinn leggur til,“ segir Hrönn.
NSK stefnir að því að fjárfesta í 10-12 félögum og verður fjárfesting í hverju félagi á bilinu 20-30 milljónir króna. Eins og áður segir er ófrávíkjanlegt skilyrði að mótframlagsfjárfesting komi frá öðrum fjárfestum fyrir að lágmarki sömu fjárhæð og NSK fjárfestir.
Dagskrá kynningarfundar:
- Hrönn Greipsdóttir, forstjóri NSK, segir frá sjóðnum
- Valdimar Halldórsson, fjárfestingastjóri hjá NSK, kynnir átakið og fer yfir umsóknarferlið
- Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Mýsköpun, segir frá félaginu og samstarfinu frá NSK
- Spurningar
Fundarstjóri verður Sesselja Reynisdóttir, framkvæmdastýra DRIFTAR EA á Akureyri, en félagið hefur það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu.
Allar nánari upplýsingar um átakið og umsóknarferlið má finna á heimasíðu NSK. Umsóknarfrestur er til og með 20. október.