Fara í efni
Fréttir

Mjög stórar breytingar fyrir háskólakerfið

Ljósmynd: Rakel Hinriksdóttir

Nýverið kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, nýtt fyrirkomulag á fjárframlögum til háskólanna á landinu. Framlögin verða hér eftir meira árangurstengd, en Áslaug sagði í kynningu sinni að veigamest væri að það yrði greitt eftir gæði umfram magn.

Elín Díanna Gunnarsdóttir, sitjandi rektor Háskólans á Akureyri, segir að þetta séu mjög stórar breytingar fyrir háskólakerfið sem slíkt. „Gamla líkanið heldur sér árið 2024 en samhliða verður nýja kerfið keyrt inn, og verður komið í gagnið 2025,“ segir Díanna við Akureyri.net. „Beinn samanburður er svolítið erfiður vegna þess að gamla kerfið miðaði við 65% fjárframlag vegna þreyttra eininga, 5% brautskráningar og svo 30% fyrir rannsóknir og annað. Það er margt í því sem er svolítið loðið. Í nýja kerfinu er miklu meira gegnsæi,“ segir Díanna.

Töluvert meira framlag fyrir loknar gráður

Nýja kerfið miðar við 60% framlag til kennslu, 15% til rannsókna og 25% er ætlað til samfélagslegs hlutverks háskólanna, en síðastnefndi liðurinn er nýr af nálinni. „Flokkarnir sem merktir eru ‘Kennsla’ og ‘rannsóknir’ miðast við mjög mælanlega hluti. Það eru loknar einingar nemenda og brautskráningar, en í rannsóknarhlutanum er miðað við birtar rannsóknargreinar og niðurstöður,“ segir Díanna. Í kerfinu eins og það er núna miðast framlögin við skráða nemendur á ákveðnum tímapunkti á önninni. Til þess að vega upp á móti því að framlag til skólans minnki vegna brottfalls, er töluvert hærra framlag til skólanna fyrir hvern nemanda sem lýkur gráðu. Sem dæmi var talan í kring um 350 þúsund fyrir lokna mastersgráðu, en núna verður hún um tvær milljónir,“ segir Díanna og bendir á að brottfall sé að stórum hluta ekki valkvætt, þar sem ýmsar greinar séu með svokölluð klásuspróf, þar sem þarf að ná ákveðnum árangri til þess að mega halda áfram námi. „Það er gert grein fyrir svokölluðum ‘kennsluauka’ í framlögunum, þar sem 5% er greitt út eftir fjölda nemenda óháð því hversu margir klára. Það, auk þess að fá hærra framlag fyrir loknar gráður tel ég að ætti að vega á móti, svona til lengri tíma,“ bætir Díanna við.

Hvaða áhrif hafa breytingarnar á Háskólann á Akureyri?

„Við erum ennþá að velta þessum upplýsingum fyrir okkur og það er erfitt að segja til um það núna hvernig þessar breytingar leggjast í okkur,“ segir Díanna. „Þegar maður horfir á þessa kvarða; loknar einingar, afmarkað mat á rannsóknum og svo framvegis, þá verður maður vissulega hugsi. Við höfum alltaf þurft að horfa til fjárlagaheimilda og stundum þurft að takmarka inntöku, en við viljum geta tekið inn fjölbreyttan hóp áfram.“ Díanna segir að markmiðið hafi auðvitað alltaf verið að halda vel utan um nemendur og styðja þá til þess að klára sínar gráður.

Ótímabært að segja til um áhrif breytinganna

„Ég er heilt yfir frekar jákvæð gagnvart þessum breytingum, en ég hef fyrirvara á því vegna þess að það er ekki alveg ljóst hvernig þetta mun reynast,“ segir Díanna og segir starfshópinn og nemendur auðvitað velta þessum breytingum fyrir sér og ýmislegt sé rætt. „Við höfum ekki haft tækifæri til þess að kafa alveg ofan í þetta, en það verður að sjálfsögðu gert. Ég veit að stúdentafélögin hafa lýst yfir einhverjum áhyggjum, en það væri sannarlega best að spyrja þau beint. Auðvitað fer háskólasamfélagið í heild sinni að skoða hvernig þessar kerfisbreytingar munu hafa áhrif,“ segir Díanna.