Fara í efni
Fréttir

Mengun í rénun – ekki eiturefni í móðunni

Mikil gosmóða hefur legið yfir Akureyri. Þessi mynd var tekin um hádegisbil fimmtudaginn 17. júlí. Móðan var þá bláleitari en hún er í dag. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Athygli hefur vakið að loftgæðamælar á loftgæðavef Umhverfis- og orkustofnunar (UOS) sýna há mengunargildi vegna eldgossins á Reykjanesi á mælum á Ísafirði og Akureyri en fjölmargir mælar í grennd við gosið sjálft segja loftgæði þar í góðu lagi. Mikil gosmóða hefur legið yfir Akureyri og víðar á Norðurlandi og meðal annars haft áhrif á millilandaflug.

Hlynur Árnason loftgæðasérfræðingur hjá UOS segir skýringuna einfaldlega vera vegna vindátta, sem færi gosmengunina yfir Snæfellsnes og til Vestfjarða og þaðan berist hún út um allt Norðurland. Og vegna stillu í veðrinu hangi þessi gosmóða enn yfir. Hlynur sagðist hafa verið í sambandi við Akureyrarbæ í morgun og sagðist telja líklegt að mengunin væri á undanhaldi. Í gær hafi verið meiri bláleitur keimur í þokunni en hún væri grárri núna, sem táknar að magn gosefna sé að minnka. „Það er þó mikilvægt að árétta að í þessari gosmóðu eru ekki eiturefni og hún veldur ekki varanlegum skaða,“ segir Hlynur. Fólk finni hins vegar fyrir ertingu í öndunarfærum og því sé ráðlegt að forðast áreynslu, halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstikerfum. Einstaklingar séu misjafnlega viðkvæmir fyrir einkennum og hver og einn þarf að meta fyrir sjálfan sig hvað hann gerir, þó að ekki sé heppilegt að vera lengi úti í mengun. En helst þurfi að gæta að ungum börnum, öldruðum og  þeim sem eru viðkvæmir í öndunarfærum, að sögn Hlyns.

 

Skjáskot af vefnum Loftgaedi.is. Það er undarlegt að allir mælar á suðvesturhorninu, þar sem gosið á upptök sín, séu grænir. Það útskýrist af vindáttum, samkvæmt Hlyni. Myndir: loftgaedi.is

Hlynur segir að engir loftgæðamælar séu staðsettir á svæðinu milli Ísafjarðar og Akureyrar en gera megi ráð fyrir að mengunar hafi orðið vart um allt Norðurland. Þeir loftgæðamælar sem UOS hafi fengið fjármagn til að setja upp hafi verið settir á Reykjanesi og nágrenni, því þar sé mesta hættan á að varasamar lofttegundir geti ógnað heilsu fólks. Að öðru leyti sé það á hendi sveitarfélaga að hafa frumkvæði að því að setja upp mæla.