Fara í efni
Fréttir

Eign í uppboðsferli vegna bílhræja á lóð

Svona var umhorfs við Hamragerði 15 í maí 2025. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Fasteignin að Hamragerði 15 á Akureyri er í opinberu uppboðsferli vegna vangoldinna dagsekta sem komnar eru yfir 11 milljónir króna. Upphaf uppboðs hefur farið fram og framhaldssala er boðuð á næstu dögum. Þetta kemur fram í fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 17. september. Ástæða uppboðsins er að dagsektir vegna umgengni á lóðinni, það er brots á reglugerð um hollustuhætti og reglugerð um meðhöndlun úrgangs, hafa ekki verið greiddar og hrannast því upp ásamt innheimtukostnaði.  

Eftir tafir vegna formgalla við fyrstu ákvörðun um dagsektir þann 13. desember 2023 var á fundi nefndarinnar þann 7. febrúar 2024 ákveðið að leggja á dagsektir að upphæð 20.000 krónur á dag frá og með 26. febrúar. Að þeim degi meðtöldum og til og með 17. september, þegar nefndin fundaði og bókaði um málið núna í vikunni, eru dagarnir samtals orðnir 570. Grunnupphæðin er því 11,4 milljónir króna, auk vaxta og innheimtukostnaðar sem bætist við. 

„Heilbrigðisnefnd undrast áframhaldandi aðgerðar- og afskiptaleysi lóðarhafa, nú þegar aukin harka er komin í innheimtuaðgerðir. Að mati nefndarinnar hefði verið unnt að bregðast við kröfu um tiltekt á lóðinni með lítilli fyrirhöfn og kostnaði innan þess rúma frests sem lóðarhafa var veittur til úrbóta og andmæla áður en ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða var tekin. Nefndin ítrekar kröfu sína um tafarlausa tiltekt á lóðinni. Dagsektir verða áfram lagðar á þar til úr verður bætt,“ segir í bókun nefndarinnar.