„Rækileg tiltekt þolir ekki frekari bið“

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur lýst áhyggjum af töfum sem orðið hafa á framkvæmdum við varanlegt geymslusvæði á athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugahálsi. „Umgengni og ásýnd svæðisins eru með þeim hætti að rækileg tiltekt þolir ekki frekari bið,“ segir í bókun nefndarinnar frá 17. september og „íhugar að beita þvingunarúrræðum, þar á meðal áminningu og dagsektum ... til að knýja fram nauðsynlegar úrbætur.“
Flutningur á vandamáli á milli staða?
Umfjöllun Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um málefni Skútabergs og athafnasvæði þess á Moldhaugahálsi á sér nokkra forsögu.
Í febrúar 2023 lýsti heilbrigðisnefndin áhyggjum af því að skipulagsvinna Hörgársveitar vegna geymslusvæðiðs á Moldhaugahálsi væri einungis flutningur frá einum stað á annan á vandamáli sem nefndin hafði þá til meðferðar vegna slæmrar umgengni á lóð að Sjafnarnesi 9 á Akureyri, sem ætti að mati nefndarinnar ekki að vera valkostur í stöðunni eftir að skipulagsráð Akureyrarbæjar hafði þá veitt lóðarhafa, Skútabergi ehf., þriggja mánaða frest til þess að bæta úr umgengni á lóðinni, en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir. „Nefndin bendir á að nú þegar hefur allmiklu af lausamunum verið safnað upp á hálsinum og að umgengni um svæðið er lóðarhöfum til lítils sóma,“ segir í bókun heilbrigðisnefndarinnar frá febrúar 2023.
Svona lítur athafnasvæði og efnistökusvæði Skútabergs á Moldhaugahálsi út, séð úr gervihnetti. Myndin er skjáskot af Google Maps 25. september 2025.
Um 16 mánuðum seinna, eða í júní 2024, fjallar heilbrigðisnefndin aftur um athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugahálsi. Þá kemur fram að nokkuð hafi borið á kvörtunum vegna umgengni á svæðinu. Fyrirtækið var hvatt til þess með bréfi 12. júní 2024 „að taka rækilega til á svæðinu og koma hlutum sem ekki hafa varðveislugildi í viðeigandi förgun,“ eins og segir í fundargerð nefndarinnar 26. júní 2024. Þá kom fram í svari frá fyrirtækinu að framkvæmdir við gerð geymslusvæðis gætu hafist þegar hönnunargögn hafi verið samþykkt í skipulagsnefnd og að tekið yrði til á svæðinu „í sumar“ (2024).
Farga eigi hlutum án varðveislugildis
Heilbrigðisnefndin ítrekaði í bókun að bæta þyrfti ásýnd svæðisins verulega og mikilvægt að útbúið yrði vandað, varanlegt geymslsusvæði og að hlutum sem ekki hefðu varðveislugildi yrðu komið í viðeigandi förgun sem allra fyrst. Einnig þurfi að ganga úr skugga að hlutir sem geymdir eru á svæðinu valdi ekki mengun í umhverfinu, til dæmis vegna fokhættu, olíu eða annarra spilliefna. Nefndin óskaði þá eftir því að verða upplýst reglulega um stöðu mála, hvernig framkvæmdum við tiltekt og gerð varanlegs geymslusvæðis miðaði.
Vegsýn frá Þjóðvegi 1 að hluta af athafnasvæði Skútabergs. Skjáskot af götusýn Google Maps.
Í september í fyrra virtist lítið hafa gerst og lýsti heilbrigðisnefndin þá vonbrigðum með að áform fyrirtækisins um tiltekt á svæðinu hafi ekki gengið eftir og gerði þá kröfu að tekið verði rækilega til á svæðinu og hlutum án varðveislugildis komið í viðeigandi förgun. Jafnframt var óskað eftir skriflegri úrbótaáætlun frá fyrirtækinu fyrir 1. október.
Flutningur á geymslusvæðið í september
Þegar heilbrigðisnefndin fundaði í byrjun desember í fyrra lá fyrir framkvæmdaleyfi vegna geymslusvæðis og framkvæmdir þá að hefjast, en jafnframt sleginn sá varnagli að gera yrði ráð fyrir að tíðarfar hafi áhrif á framkvæmdahraða. Þá var einnig komið byggingarleyfi fyrir starfsmannabúðir og unnið áfram að leyfismálum vegna sjónmanar.
Nefndin taldi jákvætt að framkvæmdir við geymslusvæðið skyldu loksins vera að hefjast, en minnti jafnramt enn og aftur á förgun hluta sem ekki hefðu varðveislugildi.
Hluti af athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugahálsi í júní 2024. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur ítrekað farið fram á að hlutum sem ekki hafa varðveislugildi verði komið í viðeigandi förgun. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Enn gerðist þó lítið í málinu, eða gerðist hægt, því á fundi heilbrigðisnefndarinnar í byrjun apríl á þessu ári kemur fram að boðaðar framkvæmdir við geymslusvæðið væru enn ekki hafnar, vegna bleytu á svæðinu. Framkvæmdaáætlun Skútabergs, dagsett 8. apríl, gerði þá ráð fyrir að framkvæmdir hæfust um mánaðamótin apríl-maí og að í september yrði hafist handa við að flytja vörugáma inn á geymslusvæðið og þar á eftir flutningabíla með vörukössum.
Nefndin gerði þá kröfu um að tiltekt á svæðinu hæfist án frekari tafa og að fyrir 1. nóvember yrði búið að fjarlægja alla gáma, vinnubúðaeiningar og flutningabíla með vörukössum af svæðinu og koma fyrir á þar til gerðu geymslusvæði eða farga þeim eftir löglegum leiðum. „Verði ekki brugðist við á fullnægjandi hátt að mati nefndarinnar kemur til greina að beita þvingunarúrræðum,“ segir meðal annars í bókun nefndarinnar í apríl á þessu ári.
Lýsa áhyggjum af töfum og íhuga þvingunarúrræði
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá fyrirtækinu, sem lágu fyrir á fundi nefndarinnar 17. september, eru framkvæmdir hafnar við gerð sjónmanar og geymslusvæðis, en þeim framkvæmdum átti að ljúka í ágúst og flutningur inn á geymslusvæðið að hefjast í september. Enn vantar þó nokkuð á að framkvæmdum sé lokið.
Heilbrigðisnefndin lýsir áhyggjum af þeim töfum sem hafa orðið og ítrekar fyrri kröfur „um að fyrir 1. nóvember verði búið að fjarlægja alla gáma, vinnubúðaeiningar og flutningabíla með vörukössum af svæðinu og koma þeim fyrir á þar til gerðu geymslusvæði eða farga þeim með lögmætum hætti.“
Enn hefur dagsektum þó ekki verið beitt, en í bókun nefndarinnar á síðasta fundi kemur fram að nefndin muni „íhuga að beita þvingunarúrræðum, þar á meðal áminningu og dagsektum ... til að knýja fram nauðsynlegar úrbætur.“
Gervihnattamynd af svæðinu eins og það leit út 2010. Skjáskot af map.is.
Svona var umhorfs á svæðinu 2018. Skjáskot af map.is.
Gervihnattamynd af sama svæði, skjáskot af map.is 25. september 2025.