Fara í efni
Fréttir

Dagsektir á Auto ehf. komnar yfir 16 milljónir

Athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd. Myndin var tekin í maí 2025. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Dagsektir að upphæð 50.000 krónur á dag hafa verið lagðar á Auto ehf. frá og með 28. október 2024 og eru því komnar vel yfir 16 milljónir króna. Þetta kemur fram í fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 17. september þar sem segir að ekki hafi verið brugðist við kröfum nefndarinnar um tiltekt á lóð fyrirtækisins að Setbergi á Svalbarðsströnd.

Til og með þeim degi sem heilbrigðisnefndin fundaði, þann 17. september, voru samtals liðnir 325 dagar og grunnupphæðin þann dag því orðin 16.250.000 krónur og ofan á þá upphæð auðvitað komnir vextir og innheimtukostnaður. Ofan á þá upphæð bætast 50 þúsund krónur daglega á meðan ekki er brugðist við kröfum nefndarinnar. „Dagsektir hafa ekki verið greiddar og eru nú í hefðbundnu innheimtuferli með tilheyrandi viðbótarkostnaði,“ segir meðal annars í fundargerðinni.

„Heilbrigðisnefnd ítrekar kröfu sína um tafarlausa tiltekt á lóð Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd og minnir á að dagsektir verða áfram lagðar á þar til úrbætur hafa verið gerðar. Nefndin gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við þá ítrekuðu háttsemi Auto ehf. að staðsetja númerslausar bifreiðar, margar í mjög slæmu ásigkomulagi, á almennings- og einkalóðum innan bæjarmarka Akureyrar. Slík háttsemi er óásættanleg og í andstöðu við ákvæði laga, reglugerða og samþykkta um hollustuhætti, mengunarvarnir og umhverfismál,“ segir í bókun nefndarinnar.