Fara í efni
Fréttir

Markús Orri yngsti Skákmeistari Akureyrar

Markús Orri Óskarsson, Skákmeistari Akureyrar. Mynd af vef Skákfélags Akureyrar.

Markús Orri Óskarsson braut blað í sögu Skákfélags Akureyrar í dag þegar hann tryggði sér Akureyrarmeistaratitilinn. Hann er yngsti sigurvegarinn í 87 ára sögu Skákþings Akureyrar, aðeins 14 ára. Markús verður ekki 15 ára fyrr en um næstu helgi.

Það var sjötta og næstsíðasta umferð mótsins sem fram fór í dag, síðasta umferðin verður næstkomandi fimmtudag

Markús Orri hafði unnið fimm fyrstu skákirnar og var með eins og hálfs vinnings forskot á næst menn. Spenna ríkti því um hvort sigurganga skákmannsins unga héldi áfram í dag og hann næði að tryggja sér meistaratitilinn.

Á vef Skákfélagsins segir: 

„Skemmst er frá því að segja að Markús lenti í kröppum dansi gegn æfingafélaga sínum, Sigþóri Árna Sigurgeirssyni. Sigþót tefldi djarft til sóknar og fórnaði liði. Á viðkvæmu augnabliki brást vörnin hjá hinum verðandi Akureyrarmeistara og ósigur blasti við. En þá þraut Sigþóri erindið - hann fann ekki vinninginn og lék skákinni skömmu síðar niður í tap.“

Báðir eru þeir þó fullsæmdir af þessari skák, segir á vefnum, Markús fyrir að hafa siglt henni í farsæla höfn og Sigþór fyrir að hafa sýnt söguleg tilþrif í sóknartaflmennsku. „Með sama áframhaldi á hann eftir að landa mörgun stórlöxum.“

Vefur Skákfélags Akureyrar