Metþátttaka á 89. Skákþingi Akureyrar
Skákþing Akureyrar hófst þann 11. janúar og er það í 89. skiptið sem það er haldið. Alls er 21 þátttakandi skráður til leiks og skv. frétt á vefsíðu Skákfélags Akureyrar (SA) mun vera alllangt síðan svo margir taka þátt í skákþinginu. Elsti keppandinn er 83 ára en sá yngsti 10 ára!
Skákþing Akureyrar var fyrst haldið 1938 og svo árlega eftir það. Flesta meistaratitla hefur Júlíus Bogason unnið, 19 talsins. Gylfi Þórhallsson varð meistari 12 sinnum en af núlifandi skákmönnum á Rúnar Sigurpálsson flesta titla í sarpinum, sjö stykki.
Núverandi Skákmeistari Akureyrar er Markús Orri Óskarsson og hann hefur reyndar orðið meistari síðustu tvö árin. Hann varð yngsti Akureyrarmeistarinn í skák frá upphafi þegar hann var fyrsta titilinn árið 2024, þá rétt tæplega 15 ára gamall, og freistar þess nú að bæta þriðja titlinum í safnið.
Úrslitin í fyrstu umferðinni urðu „eftir bókinni“, eins og sagt er í frétt SA - stigahærri skákmaðurinn vann þann stigalægri í öllum viðureignum, þó að stundum hafi litlu munað að yngri skákmennirnir næðu að gera þeim eldri skráveifu. Tveir þátttakenda voru reyndar staddir á skákmóti í Færeyjum þegar fyrsta umferðin var tefld og fengu þeir skákum sínum frestað.