Fara í efni
Fréttir

Símon vann Janus Open mótið í Færeyjum

Símon Þórhallsson úr Skákfélagi Akureyrar varð efstur á skákmóti í Færeyjum. Mynd: faroechess.com.

Símon Þórhallsson úr Skákfélagi Akureyrar (SA) gerði sér lítið fyrir og bar sigur úr býtum á Janus Open II skákmótinu sem haldið var í Færeyjum nýverið. Símon varð einn efstur, með 7 vinninga af 9 mögulegum, hálfum vinningi á undan næstu mönnum.

Fyrir lokaumferðina var Jón Kristinn Þorgeirsson, félagi Símonar úr SA, reyndar í efsta sætinu með 6,5 vinninga en Símon var með 6. Þeir mættust einmitt í lokaumferðinni og með sigri í þeirri viðureign náði Símon efsta sætinu en Jón Þorgeir endaði í hópi fjögurra skákmanna sem komu í humátt á eftir Símoni með 6,5 vinninga. Alls tóku 135 skákmenn þátt í mótinu, þar af 11 frá Íslandi.

Símon og Jón Kristinn eru einnig meðal þátttakenda í Skákþingi Akureyrar, sem nú er nýhafið, en fengu skákum sínum í fyrstu umferðinni frestað á meðan þeir sátu að tafli í Færeyjum.