Fara í efni
Fréttir

Mál MA og VMA: „Það er titringur í Framsókn!“

Það er titringur í Framsókn. Notfærum okkur það. Gerum þetta að erfiðu máli,” sagði Unnur Pétursdóttir, ein þeirra sem tóku til máls á samstöðufundi gegn áformum um sameiningu MA og VMA. Á fundinum var einnig lesin upp yfirlýsing frá Ingibjörgu Isaksen, þingkonu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Þingflokksformaður Framsóknar stígur niður fæti

Í upphafi fundarins vitnaði Snævar Örn Georgsson, sem stýrði fundinum, í orð Ingibjargar Isaksen, þingflokksformanns Framsóknarflokksins og fyrsta þingmanns Norðausturkjördæmis, varðandi sameiningarvinnuna. Í framhaldi áréttaði Ingibjörg fyrri orð með athugasemd undir streyminu frá fundinum og var athugasemd hennar lesin upp á fundinum.

Orð Ingibjargar verða ekki skilin öðruvísi en svo að hún muni stíga niður fæti varðandi áform um sameiningu skólanna og vilji tryggja að efling náms og aukin fjölbreytni verði höfð að leiðarljósi, að öðrum kosti verði ekki af sameiningu. Hún kveðst fylgja þessu fast eftir á meðan hún sitji sem oddviti Framsóknar í kjördæminu.

Ingibjörg skrifaði:

„Þar sem vitnað hefur verið í mín orð vil ég koma því hér á framfæri svo ekki sé vafi á að þá verður ekki af sameiningu skólanna nema sýnt verði með óyggjandi hætti að sameiningin verði til þess að efla nám og skapa enn meira val og fjölbreytileika fyrir nemendur okkar. Sérfræðingar, starfsfólk og fyrst og fremst nemendur þurfa að vera sáttir við það sem lagt verður fram.

Verkefnið er svo miklu stærra en excel skjal, horfa þarf til námsmöguleika, styrkleika hvers skóla, menningar og sögu. Á meðan ég sit sem oddviti Framsóknar hér í kjördæminu þá mun ég fylgja þessu fast eftir og stend við þessi orð.

En af því sögðu þá þarf frekara fjármagn til framhaldsskóla um allt land en einnig rýna í og skoða hvort og hvernig við nýtum fjármagnið sem nú þegar er í kerfinu með sem bestum hætti.“

Þörf á að sannfæra stjórnmálamennina

Unnur Pétursdóttir stundaði hvorki nám í MA né VMA heldur MR, fluttist til Akureyrar og kynntist MA í gegnum manninn sinn og börnin. Unnur tók til máls á fundinum og sagði vera „titring í Framsókn“. Hún vísaði þar í grein sem Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og áhugamaður um menntun og skóla, eins og hann er titlaður undir greininni, birti á fréttavefnum Vísi í morgun. Einar er flokksbróðir Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, sem síðastliðinn þriðjudag kynnti áform um sameiningu MA og VMA við misgóðar undirtektir. Grein Einars hefur verið deilt í Facebook-hópnum Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA og fengið þar vægast sagt dræmar undirtektir.


Unnur Pétursdóttir í ræðustól á fundinum í dag. „Gerum þetta að erfiðu máli fyrir Framsókn,“ sagði hún meðal annars.

Unnur sagði í ræðu sinni ekki þörf á að sannfæra fundarmenn því þeir væru sennilega allir samstíga gegn áformunum. Ekki þurfi heldur að sannfæra almenning heldur séu það stjórnmálamennirnir sem þurfi að sannfæra til að koma í veg fyrir sameininguna.

„Potum í þá! Tölum við þá!“

„Ég segi: gerum þetta að erfiðu pólitísku máli, gerum þetta að erfiðu máli í vetur, fyrir þann ráðherra sem hér hefur stigið fram með þessar hugmyndir. Gerum þetta að erfiðu máli fyrir Framsókn, sem á að heita landsbyggðarflokkur, að minnsta kosti stundum sem hann skreytir sig með þeim fjöðrum. Potum í þá. Tölum við þá,“ sagði Unnur.

Hún bætti svo við að „sú vonda grein“ sem ágætur vinur hennar, Einar Sveinbjörnsson, setti fram hafi sannfært sig enn betur um það að kominn sé upp titringur í Framsókn. „Notfærum okkur það, höldum áfram að pota,“ sagði Unnur.

Þurfum aðgerðahóp

Unnur spurði svo: Hvað næst? Hún svaraði með nokkrum atriðum sem hún taldi nauðsynleg sem næstu skref; setja saman aðgerðahóp með 5-7 manns og með fundargesti og samstöðuhópinn sem bakland, brýna bæjarstjórn til góðra verka og fá opinn fund bæjarstjórnar, ná samtali við þingmenn kjördæmisins og ræða hressilega við Framsókn á öllum sviðum, grasrótina, sveitarstjórnina, alþingismennina. Að auki þyrfti að fá landsbyggðarsamtök og félag framhaldsskólakennara með á vagninn, og nefndi að miðað við það sem fram hafi komið sé greinilegt að Félag framhaldsskólakennara sé með.

Sjá einnig: Sameiningaráform rædd á bæjarstjórnarfundi | akureyri.net