Fara í efni
Fréttir

Kröftugur málflutningur vekur væntingar

Grein Hálfdánar Örnólfssonar – Sveltur til sameiningar? – sem birtist á Akureyri.net í gær hefur vakið mikla athygli. Hálfdán bar í greininni saman annars vegar þróun ársnemenda hjá sjö stærstu bóknámsskólunum, þ.e. heimild skólanna til að taka inn nemendur samkvæmt fjárlögum, og hins vegar eins og fjárheimildirnar birtast í ársreikningum skólanna.

„Samanburðurinn er sláandi. Í ljós kemur að Menntaskólinn á Akureyri hefur farið verr út úr ferlinu heldur en nokkur annar skóli hvað varðar nemendafjölda og fjárveitingar,“ skrifar Hálfdán. Hann segir MA hafa reynt að bæta sér upp missinn á árgangi þegar námið var stytt í þrjú ár með því að fjölga nemendum, en ekki fengið. „Er hér um að ræða eitthvert óhapp í ráðuneytinu við meðhöndlun á brothættu reiknilíkani eða er þetta meðvituð pólitík? Er verið að hanna atburðarás?“ spyr Hálfdán.

Akureyri.net bíður viðbragða ráðuneytis eða ráðherra, en leitaði einnig eftir viðbrögðum Karls Frímannssonar, skólameistara MA, við þeim upplýsingum sem fram koma í grein Hálfdánar. 

Fjárframlög fylgja ekki verðbólgu

Til útskýringar bendir Karl á að fjárhagsáætlun Menntaskólans á Akureyri sé í grófum dráttum þannig samsett að 75% fari í laun, 20% í húsaleigu og kostnað vegna heimavistar og 5% í annan rekstur, s.s. hita og rafmagn eða endurnýjun búnaðar, áhalda og tækja.

Karl segir vanda skólans felast meðal annars í því að fjárframlög fylgi ekki verðbólgu samhliða hækkun á húsaleigu sem ríkið ákveður sjálft, en fjármálastjórnun skólans hafi verið traust undanfarin ár. „Hvað varðar frekari hagræðingu en nú þegar hefur verið gerð þá gefur auga leið að þegar breytingar á fjárframlögum til skólans undanfarin ár halda ekki í við verðbólgu samhliða hækkun á húsaleigu sem ríkið ákveður sjálft þá endar það á einn veg. Er þá ótalinn rekstrarhalli vegna innritunar nýnema umfram fjárlög,“ segir Karl.

Hann segir einu möguleikana á hagræðingu snúast um að lækka liðinn annan rekstur, en hann sé þó undirfjármagnaður nú þegar. Fjármálastjórnun í MA undanfarin ár hefur verið traust og það má öllum vera ljóst að hér er haldið um hverja krónu. Fyrrum skólameistari, Jón Már Héðinsson, sótti af einurð til ráðuneytis, bæði um leiðréttingu á hlut MA en ekki síður að fjárveitingar væru fyrirsjáanlegar og farið væri eftir gegnsæjum leikreglum,” segir Karl. Hann bendir á að þeim málflutningi hafi verið haldið til streitu, en svörin hafi annaðhvort verið munnleg eða í formi lækkunar á fjárlögum.

Skriflegri beiðni svarað munnlega

Vorið 2022 voru innritaðir 230 nýnemar með því fororði að skólinn fengi auknar fjárveitingar í samræmi við það. Af því hefur enn ekki orðið,“ segir hann og bendir á að við skriflegri beiðni frá MA til ráðuneytisins síðastliðinn vetur um að fá heimild til að innrita á bilinu 180-200 nemendur vorið 2023 hafi borist munnlegt svar um að skólinn mætti það. „Á fjárlögum 2024 er heimild til að hafa 550 nemendur í MA og fjárhæðin á hvert nemendaígildi hækkuð um 6,6% frá árinu 2023 í 10% verðbólgu. Núverandi fjöldi nemenda er 574. Gefur auga leið að dæmið gengur ekki upp,“ segir Karl.

Kröftugur málflutningur vekur væntingar

Karl segir nemendaígildum á fjárlögum til MA og VMA hafa fækkað um 60 á fáum árum. Um það hafi verið tekin ákvörðun innan ráðuneytisins út frá þróun á fjölda í árgöngum á framhaldsskólaaldri á Akureyri og helsta upptökusvæði skólanna, sem nær frá Djúpavogi að Hólmavík. „Ef litið er til innritunartalna í MA síðastliðin ár má ljóst vera að þær leita hægt niður á við en sveiflast nokkuð milli ára. Fyrir þeim sveiflum ætti að vera hægt að áætla þannig að skólinn njóti sannmælis í fjárframlögum og þurfi ekki að sitja undir því að vera rekinn með halla ár eftir ár,” segir Karl.

Í ljósi kröftugs málflutnings þingmanna Norðausturkjördæmis að undanförnu gegn sameiningaráformum MA og VMA þá hlýtur að mega vænta þess að þeir vinni ötullega að því að leiðrétta hlut MA, bæði hvað varðar of lágar fjárveitingar undanfarin ár sem og fjárveitingar til framtíðar sem verða að duga fyrir menntun þeirra ungmenna sem hingað vilja sækja,” segir Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.