Fara í efni
Fréttir

Hríseyingar loks í gott netsamband?

Hríseyingar loks í gott netsamband?

Hríseyingar komast væntanlega í framúrskarandi netsamband áður en langt um líður. Fjarskiptasjóður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hefur samþykkt að veita Akureyrarbæ sex milljóna króna styrk til lagningar stofnstrengs með ljósleiðara út í eyju, og bæjarstjórinn segir að allra leiða verði leitað til að fjármagna það sem upp á vantar.

„Ég fagna mjög þessum jákvæðu undirtektum fjarskiptasjóðs og nú verður leitað allra leiða til að fjármagna það sem upp á vantar til þess að unnt verði að tengja Hrísey við ljósleiðaranet Íslands,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, á heimasíðu Akureyrabæjar, þar sem greint er frá styrknum.

Ásthildur nefndi, í minnisblaði sem hún sendi fjarskiptasjóði síðari hluta febrúar fyrir hönd bæjarstjórnar, að nettengingar í Hrísey væru í gegnum örbylgjusamband „sem hindrar fulla afkastagetu við flutning á efni um internetið og hamlar hraðvirkni í tölvuvinnslu. Afar brýnt er að úr þessu verði bætt sem fyrst. Með því að tengja Hrísey við ljósleiðara má tryggja betur fasta búsetu í eyjunni og gera hana að álitlegum búsetukosti fyrir fólk í öllum starfsgreinum. Ljósleiðaratenging yrði einnig til að efla ferðaþjónustu í Hrísey sem hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum.“