Fara í efni
Fréttir

Metár í mannskap og bílaflota

Höldur rekur á þessu ári fleiri bílaleigubíla en nokkru sinni áður, eða um átta þúsund bíla. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Methagnaður hjá Höldi í fyrra verður líklega ekki endurtekinn í bráð að sögn forstjóra fyrirtækisins. Höldur hefur aldrei áður verið með jafn margt fólk í vinnu og jafn marga bíla í flotanum. Spurn eftir bílaleigubílum hefur þó minnkað á milli ára vegna fjölgunar hópferða og gistirými því takmarkaðra fyrir viðskiptavini bílaleiganna.

Steingrímur Birgisson, forstjóri fyrirtækisins, þakkar það sterkri stöðu fyrirtækisins á heimamarkaði og miklum sveigjanleika, samanber til dæmis það að fyrirtækið gat selt bíla og þannig minnkað flotann þegar mikill samdráttur varð í komu ferðamanna til landsins, að Höldur skyldi komast í gegnum heimsfaraldurinn, sem hann segir þó ekki hafa verið klakklaust því fyrirtækið hafi tapað 400 milljónum árið 2020, en náð að hafa sig í gegnum það.


Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, það hafa tekið á að fjölga aftur bílum í flota bílaleigunnar eftir heimsfaraldurinn.

Viðskipti bílaleiga hrundu eins og svo margt annað í heimsfaraldrinum, en Steingrímur bendir á fjölbreytni í rekstri fyrirtækisins sem hafi komið sér vel. Bílaleigan er ekki eina rekstrareiningin því Höldur rekur einnig tvær bílasölur, dekkjaverkstæði og stórt þjónustuverkstæði og segir Steingrímur það dreifa áhættunni.

Það hefur síðan tekið á að bíla sig upp aftur eins og Steingrímur orðar það. Það krefjist mikils fjármagns og kosti sitt, sérstaklega núna á þessu ári og það hafi verið miklar áskoranir fyrir fyrirtækið að kljúfa það. Einnig er erfitt að finna rétta bíla, fá varahluti, dekk og fleira, sem fór allt úr skorðum, bæði vegna covid og stríðsins,“ segir Steingrímur og vísar þar að sjálfsögðu til innrásar Rússa í Úkraínu.


Höldur er ekki með öll eggin í sömu körfunni þó vissulega séu körfurnar skyldar og rekstrareiningarnar tengist allar bifreiðum á einhvern hátt. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Einstaklega heppin með starfsfólk

Sveiflurnar í heimsfaraldrinum og eftir hann voru miklar því fyrirtækið seldi eins marga bíla frá bílaleigunni árið 2020 og mögulega var hægt, en um það bil frá miðju ári 2021 hafa viðskiptin verið á hinn veginn og keyptir eins margir bílar og hægt var. Sumarið 2020 var ekkert ráðið af sumarstarfsfólki, en það breyttist í fyrra og svo enn fleira fólk ráðið í ár. Hann segir það hafa verið talsvert verk að finna gott starfsfólk til að bæta við, en það hafi gengið upp og fyrirtækið sé einstaklega heppið með frábært starfsfólk.

Yfirstandandi ár er metár hjá Höldi, bæði í starfsmannahaldi og fjölda bíla í flotanum því nú starfa um 320 manns hjá fyrirtækinu og það eru um átta þúsund bílar í flotanum.  Steingrímur segir þó að fyrirtækið sé með heldur marga bíla í sumar, en það sé aldrei hægt að hitta alveg akkúrat á rétta fjöldann. 


Á meðal rekstrareininga Hölds eru dekkjaverkstæði og þvottastöð. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Vextir og hækkanir hafa áhrif

„Árið í ár er ágætt, en nær aldrei nálægt síðasta ári í afkomu og reyndar held ég að afkoman frá 2022 sjáist ekki aftur í bráð,“ segir Steingrímur, spurður um stöðuna í dag og horfurnar á þessu ári. Árið í fyrra var algjört metár hjá fyrirtækinu og veltan um 13,5 milljarðar, en eftirspurnin hefur heldur dregist saman í ár að sögn Steingríms. Þar hafi áhrif að í ár séu heldur fleiri hópar á ferð sem fylli gistirýmin þannig að sú tegund ferðamanna sem er í viðskiptavinahópi Hölds fái ekki gistingu þannig að spurn eftir bílaleigubílum minnki í samræmi við það.

„Heimamarkaðurinn hefur aftur á móti vaxið aðeins þannig að ég er bjartsýnn á svipaða eða ögn meiri veltu, en afkoman verður verri en í fyrra enda vextir og laun hækkað mikið frá fyrra ári, sem og nánast allur annar kostnaður,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds.