Fara í efni
Fréttir

Jarðhitaleit í nágrenni Hauganess

Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) hafa í samstarfi við Norðurorku séð um áframhaldandi rannsóknir á svæðinu og framkvæmt meðal annars segulmælingar á yfirborði og á sjó. Mynd: Norðurorka.

Jarðhitaleit stendur nú yfir í landi Ytri-Víkur í nágrenni Hauganess, en vinnslusvæðið er kennt við Ytri-Haga, sem er gamalt eyðibýli í landi Syðri-Haga. Fram kom í umfjöllun á Akureyri.net um hitaveitumál í haust að grunur um innstreymi sjávar í borholu Norðurorku á Hjalteyri hafi knúið Norðurorku til að flýta rannsóknum og leit að heitu vatni á öðrum stöðum. Norðurorka hafði reyndar tryggt sér jarðhitaréttindin að Ytri-Haga með samningum sem undirritaðir voru 2016. Svæðið sem um ræðir er um átta kílómetrum norðan við Hjalteyri.

Í frétt á vef Norðurorku  kemur fram að Íbúar Hauganess hafi ef til vill orðið varir við starfsfólk Norðurorku við Ytri-Vík að undanförnu og að ástæðan sé að nú standi yfir jarðhitaleit á svæðinu. Það er þó ekki alveg nýtt að jarðhita sé leitað við Ytri-Vík því leit þar hófst 1994 að frumkvæði landeiganda, Sveins Jónssonar í Kálfsskinni. Norðurorka keypti jarðhitaréttindin og hitaveituna árið 2015 og í kjölfarið var ný vinnsluhola YV-20 boruð haustið 2017 þar sem eldri vinnsluhola var orðin ónothæf. Holan er 264 m djúp og heppnaðist vel þar sem hún gaf við borlok 12,9 l/s af 84°C heitu vatni í sjálfrennsli. Hola YV-20 er í dag notuð sem vinnsluhola fyrir hitaveituna á svæðinu. Ákveðið var að kenna nýja vinnslusvæðið við Ytri Haga en það er gamalt eyðibýli í landi Syðri Haga,“ segir meðal annars á vef Norðurorku.

Fram kemur í frétt Norðurorku að Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR) hafi í samstarfi við Norðurorku séð um áframhaldandi rannsóknir á svæðinu og meðal annars gert segulmælingar á yfirborði og á sjó. Allt bendi til að hægt sé að vinna mun meira heitt vatn á svæðinu og til standi að bora djúpa vinnsluholu. Til að staðsetja hana sem best hafi samkvæmt ráðleggingum ÍSOR verið ákveðið að bora tvær 500 metra djúpar rannsóknarholur, aðra í landi Syðri-Haga og hina í landi Sólbakka. Borun hófst í desember og stendur enn yfir.

Að svo stöddu er þó enn lítið vitað um afkastagetu svæðisins að Ytri-Haga til framtíðar. Hola YV-20 sem er nú þegar í notkun gefur 12,9 lítra á sekúndu af 84°C heitu vatni í sjálfrennsli, en til samanburðar er hámarksdæling vinnslusvæðisins á Hjalteyri, sem er helsta vinnslusvæði Norðurorku, 215 lítrar á sekúndu og er það svæði sérlega gjöfult, eins og það er orðað í fréttinni. 

Gangi áætlanir eftir verður byggð dælustöð og tankur í landi Syðri-Haga og þaðan lögð lögn til Hjalteyrar til að koma vatninu áfram til Akureyrar og nágrennis.

Myndir frá umræddu vinnslusvæði. Myndir: Norðurorka.

Útskýringar á hugtökum

Í frétt Norðurorku eru í lokin stuttar skýringar á hugtökum sem notuð eru í tengslum við þessi vinnslusvæði. 

Hvað er hitastigulshola?

Hitastigulsboranir eru notaðar til að leita að jarðhita þar sem engin yfirborðsummerki eru. Bora þarf í berg þannig að hver hola er að jafnaði um 50-100 metra löng, allt eftir því hve langt er í bergið.

Hvað eru segulmælingar?

Gerðar eru segulmælingar á yfirborði til að leita eftir sprungum neðanjarðar og finna stefnuna á þær. Áður fyrr voru segulmælingar gerðar fótgangandi en í dag eru segulmælingar gerðar með drónum.