Fara í efni
Fréttir

Norðurorka hækkaði gjaldskrár um áramótin

Um áramótin tóku gildi gjaldskrárbreytingar hjá Norðurorku og hækkaði þá verð á hitaveitu, rafveitu og fráveitu en gjaldskrá vatnsveitu verður óbreytt. Stjórn Norðurorku tók ákvörðun um þessar verðbreytingar á grundvelli greiningar á rekstrarkostnaði og vísitölum og að teknu tilliti til fjárfestingaáætlana.

  • Hitaveita - gjaldskrá hækkar um 5,1%

Að því er fram kemur í frétt á vef Norðurorku voru boraðar tvær vinnsluholur á síðastliðnu ári. Borun í Ólafsfirði bar ekki árangur en útlit er fyrir að vel hafi tekist til í Ytri Haga. Þær framkvæmdir sem eftir er að fara í vegna virkjunar á nýju borholunni eru kostnaðarsamar auk þess sem umfangsmiklar rannsóknir standa yfir á starfssvæðinu og munu þær halda áfram næstu ár. Framkvæmdaáætlun hitaveitu gerir ráð fyrir hátt í 2 milljörðum í fjárfestingar á næstu tveimur árum og eru fjárfestingar í hitaveitu um helmingur allra fjárfestinga Norðurorku næstu tvö árin. 

  • Rafveita - gjaldskrá hækkar um 4,9%

Meginskýringin á gjaldskrárhækkun rafveitu segir Norðurorka vera vegna þess að magn dreifðrar orku í rafveitunni hafi lítið breyst í mörg ár þrátt fyrir fjölgun íbúða og af þeim sökum hafi tekjur ekki vaxið í samræmi við aukið umfang veitukerfisins. Tekjur í rafveitu hafi í nokkur ár verið vanteknar, þ.e. talsvert hefur vantað upp á það að tekjumörk séu nýtt til fulls, og mikilvægt sé að nálgast þau tekjumörk sem rafveitu eru sett. Umtalsverðar nýframkvæmdir eru og verða í gangi næstu ár hjá rafveitunni.

  • Fráveita - gjaldskrá hækkar um 14,5%

Í virðisprófum sem Norðurorka hefur framkvæmt á veitum fyrirtækisins síðustu ár hefur fráveitan komið neikvætt út, sem þýðir að tekjur standa ekki undir eignum veitunnar. Til að fráveitan gæti staðist virðispróf hefði þurft að hækka gjaldskrána um 20% en stjórn Norðurorku ákvað að taka það skref ekki í einu lagi. Hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót hefur valdið straumhvörfum í fráveitumálum á Akureyri, meðal annars með því að sía rusl úr fráveituvatninu sem annars hefði endað úti í sjó, auk þess gerlamengun hefur minnkað meðfram strandlengju Akureyrar með tilkomu stöðvarinnar.

  • Vatnsveita - gjaldskrá óbreytt

Að sögn Norðurorku er rekstur vatnsveitu í jafnvægi og tekjur standa undir rekstri. Þrátt fyrir áætlaðar umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum er gert ráð fyrir að nýjar tekjur muni duga til að mæta þeim kostnaði til lengri tíma. Þar að auki gilda stífar kröfur um leyfilegar tekjur og arðsemi vatnsveitu. Vatnsveita Norðurorku er komin í það hámark sem leiðbeiningar og reiknilíkan ráðuneytis sveitarstjórnarmála kveða á um.

Norðurorka innheimtir gjöld fyrir notkun hitaveitu og dreifingu rafmagns en gjöld vegna fráveitu og vatnsveitu eru innheimt með fasteignagjöldum.