Fara í efni
Fréttir

„Heill heimur á bak við ruslatunnuna“

Helgi Pálsson, rekstrarstjóri Terra á Norðausturlandi. Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

Breytingar á hirðu endurvinnanlegs úrgangs á Akureyri eru yfirvofandi. Hætt verður með svokallaðar endurvinnslutunnur við heimahús sem stóðu íbúum til boða gegn mánaðarlegu gjaldi, en í þær mátti setja pappír, plast, pappa og málm, allt í bland. Helgi Pálsson, rekstrarstjóri Terra á Norðausturlandi, segir að á bilinu 10-12 % íbúa hafi verið með slíkar tunnur. Aðrir íbúar, þau sem flokka samviskusamlega, hafi verið að nota grenndarstöðvarnar.

Akureyrarbær gaf nýverið út tilkynningu á heimasíðu sinni um nýtt kerfi, en í stað einnar tvískiptrar tunnu við heimahús, verða settar tvær tvískiptar tunnur. Þar verða hólf fyrir matarleifar, pappír/pappa, plast og að lokum blandaðan úrgang (almennt sorp). Útskiptin á tunnunum munu eiga sér stað í vor, stendur á heimasíðu bæjarins. Smellið hér til að sjá meira um það.

Keyrt til Hafnarfjarðar í flokkunarvél

„Ný lög kveða á um að það verður að halda aðskildu pappírsefni og plastefni,“ segir Helgi í viðtali við Akureyri.net og leggur áherslu á að það sé mjög flókið að flokka úr endurvinnslutunnunum frá heimilunum. „Við byrjuðum á því að handflokka þetta hérna á sérstakri starfsstöð, en það var of tímafrekt.“ Eftir að flokkuninni var hætt hér á staðnum, fór Terra að keyra óflokkað efnið úr þessum tunnum til Hafnarfjarðar, þar sem flokkunarvélin Fróði hefur séð um að aðskilja hinar ólíku gerðir efnis. 

Flokkun úr grenndargámum er oft óvönduð, hér hafa gömul vínber slæðst með fernunum.

Ekki hægt að endurvinna allt plast

Grenndarstöðvarnar eru auðveldari, segir Helgi. „Á hverri grenndarstöð er sér gámur fyrir allt þannig að það er mikið auðveldara að vinna með það. Samt er þetta alls ekki eins einfalt og maður gæti haldið. Plast til dæmis er ofboðslega misjafnt,“ segir Helgi. „Við leggjum áherslu á að safna umbúðaplasti til dæmis. Ferillinn er nokkuð skýr í endurvinnslu og Úrvinnslusjóður leggur gjald á allar slíkar umbúðir við innflutning, þannig að þá er hægt að sækja í sjóðinn greiðslur fyrir endurvinnslunni. Það er ekki þannig með gömlu snjóþotuna, hana er ekki hægt að endurvinna. Ef að við getum ekki endurunnið plastið sem berst til okkar, þá endar það bara í urðun eða brennslu,“ segir Helgi.

Það þarf að vera eftirspurn

Það er eins með endurvinnslu og flest annað. Til þess að geta endurunnið efni, þarf að vera eftirspurn eftir því sem verið er að bjóða. „Það er alltaf spurning um það hver er eftirspurnin á hverjum tíma. Hvernig losnum við við efnið og hvað kostar það okkur,“ segir Helgi. „Það eru bara heimsmarkaðsverð á þessari vöru. Það er náttúrlega tilgangslaust að vera að endurvinna efni ef enginn vill nýta það í eitthvað annað. Staðreyndin er sú að það er ódýrara að búa til nýtt plast heldur en að endurvinna, þannig að margir fara því miður frekar þá leiðina,“ bætir hann við. Það er því að ýmsu að huga og ljóst að málið er alls ekki svo einfalt.

 „Það er í rauninni þetta neyslufyllerí sem við erum á sem er að koma í bakið á okkur. Það á náttúrulega að byrja þessa hugsun í búðinni.“

Endurvinnslumerki á umbúðum þýðir ekki endilega að þær verði endurunnar

Það er flókið fyrir neytendur að átta sig á frumskógi mismunandi umbúða. Helgi segir að skilvirkar merkingar skorti gríðarlega á umbúðir, til dæmis er allt hitaþolið plast – sem er brætt saman í vélum utan um vöruna – óendurvinnanlegt. Samt er oft einhver merking á umbúðunum, en það getur jafnvel verið vegna einhverrar vottunar á kolefnisjöfnun, sem getur augljóslega verið villandi fyrir neytendur sem trúa því að plastið verði endurunnið. „Þegar fólk vaknar meira, þá hættir það að kaupa svona vöru sem er til vandræða eða illa merkt. Það er í rauninni þetta neyslufyllerí sem við erum á sem er að koma í bakið á okkur. Það á náttúrlega að byrja þessa hugsun í búðinni,“ segir Helgi.

Helgi vill sjá betri merkingar á umbúðum, til þess að auðvelda fyrir neytendum sem hugsa um umhverfið. 

Brennsla í stað urðunar í framtíðinni

Spurður hvort hann telji að draumar ríkisstjórnarinnar um að Ísland geti hætt að urða sorp, séu raunhæfar, tekur Helgi jákvætt í það. „Það hefur verið rætt um brennslu. Annað hvort eina stóra eða fleiri dreifðar,“ segir Helgi. „Það hverfur náttúrlega ekkert. Sorpið breytist úr einu efni yfir í annað, en þegar þú brennir við svona hátt hitastig eins og í svona stórum brennslum, verður askan minni,“ segir hann.

Helgi segir frá því að erlendis hafi verið reynt að finna not fyrir öskuna, til dæmis að blanda í steypu eða annað. Engin töfralausn hefur þó verið fundin.