Bærinn sendi ekki umsögn um lagareldið
Akureyrarbær sendi ekki inn umsögn um drög að frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um lagareldi. Eins og akureyri.net fjallaði um í gær var ákvæði um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíeldi í frumvarpi frá 2023 og aftur 2024 en ákvæði um friðun fjarðarins er ekki í drögunum nú. Drögin voru í samráðsgátt þar í gærkvöldi.
Málið var rætt í bæjarráði fyrr á kjörtímabilinu en ekki til hlítar, ekkert var formlega samþykkt og því liggur ekki fyrir hvort núverandi bæjarstjórn er sammála þeirri síðustu; Akureyrarbær lagði til við sjávarútvegsráðherra árið 2020 að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir sjókvíaeldi.
Hafa ekki fengið fund með ráðherra
Akureyrarbær hefur nokkrum sinnum óskað eftir fundi með ráðherra til að ræða málið en ekki fengið, að sögn Höllu Bjarkar Reynisdóttur, bæjarfulltrúa L-listans og forseta bæjarstjórnar. Hún gerir fastlega ráð fyrir að slíkur fundur fáist og þar muni bæjaryfirvöld koma skoðunum sínum á framfæri.
„Ég get ekki talað fyrir aðra,“ sagði Halla Björk við akureyri.net í dag, spurð um afstöðu bæjarstjórnar. „Mér þætti allt í lagi að skoða landeldi en Eyjafjörður ætti að láta sjókvíaeldi eiga sig.“
Akureyrarbær vildi friðun 2020
Bæjarstjórn Akureyrar er lagt til við sjávarútvegsráðherra árið 2020 að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi, eins og áður sagði. „Þannig verði meiri hagsmunum ekki fórnað fyrir minni,“ sagði í frétt RÚV í maí það ár.
Í frétt RÚV á sínum tíma sagði meðal annars:
Tillagan kom frá Gunnari Gíslasyni, fulltrúa í minnihluta bæjarstjórnar, og meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu hennar. Tveir fulltrúar Samfylkingar í meirihlutanum styðja að óskað verði eftir því að Eyjafjörður verði friðaður gegn sjókvíaeldi, á meðan hinir fjórir fulltrúar meirihlutans vilja hafa samráð við önnur sveitarfélög um það hvort leyfa eigi eldi í firðinum eða ekki. „Það var bara mín einlæga sannfæring bæði er varðar lífríki fjarðarins og framtíðar atvinnuuppbyggingu hér í firðinum að þeim væri best borgið með því að friða fjörðinn,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar.
Bókun Akureyringa féll í grýttan jarðveg í Fjallabyggð, að því er segir í frétt RÚV. Þar segir:
Í Fjallabyggð hafa verið áform um sjókvíaeldi og vinnslustöð fyrir lax í Ólafsfirði sem skapað gæti allt að 70 störf. Bókun Akureyringa fellur í grýttan jarðveg þar. „Hún í grunninn samræmist ekki þeim áformum sem fram hafa verið sett,“ segir Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð. „Ég tel nú að þetta sé mjög bratt hjá Akureyringum að óska eftir því við ráðherra að hann friði allan Eyjafjörð án þess að menn hafi rætt það saman.“