Fara í efni
Fréttir

HA og Bifröst hefja sameiningarviðræður

Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Háskólaráð Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst hafa samþykkt að hefja sameiningarviðræður. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, greindi frá þessu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Vísir segir frá.

Vísir hefur eftir Áslaugu Örnu að mikil greiningarvinna liggi að baki og hún bendir á að með þessu gæti næststærsti háskóli landsins orðið til. Skólarnir hafi verið leiðandi í fjarnámi og með þessu megi styrkja stoðir þeirra enn fremur. Starfsemi sameinaðs skóla verði fyrst og fremst á Akureyri en ef til vill verði starfsstöðvar í Borgarnesi og víðar um landið, eftir því hvar starfsmenn búa.

„Þetta gæti styrkt háskólanám fyrir norðan sem og fyrir landsbyggðina alla, en ekki síst háskólastarfsemi á Ísland. Þar sem ég hef bent á að við þurfum að gera betur í alþjóðlegum samanburði og að skólarnir þurfi að vinna meira saman,“ segir Áslaug Arna við Vísi.

„Þarna er verið efla háskóla á landsbyggðinni með því að sameina Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Þannig að háskólastarf á landsbyggðinni verði verulega öflugt, þau vilja meðal annars efla rannsóknarhlutverk sitt og við erum að skoða að koma upp öflugum rannsóknarsjóði.“

Frétt Vísis: Næststærsti háskóli landsins í pípunum

Frétt Akureyri.net í desember: Sameining HA og Bifrastar talin fýsileg