Fara í efni
Fréttir

Gæta þarf jafnréttis, ekki bara á milli kynja

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og formaður Jafnréttisráðs HA. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Við erum að endurskoða jafnréttisáætlun skólans,“ segir Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og formaður Jafnréttisráðs HA. „Við höfum boðað öll sem hafa áhuga, úr röðum starfsfólks og nemenda, að koma á vinnustofur í þessari stefnumótun. Hvað viljum við sjá í uppfærðri jafnréttisáætlun?“

Fjöldi starfsfólks af erlendum uppruna hefur aukist mikið, og í tengslum við það koma upp mál varðandi tungumál, inngildingu og fleira

„Núverandi jafnréttisáætlun er frá 2021,“ segir Berglind. „Sú áætlun fjallar um jafnrétti kynjanna meðal starfsfólks og stúdenta.“ Til dæmis er tekið fram að engin kynbundinn launamunur skuli vera innan veggja skólans, jafnræði ríki í kynjahlutföllum í ráðum og nefndum og að störf í skólanum skuli ekki flokkast í karla- og kvennastörf. Berglind segir að í stefnumótun fyrir nýja jafnréttisáætlun verði áherslusviðið útvíkkað. „Nýlega lögðum við könnun fyrir nemendur og starfsfólk HA og meðal annars athuguðum við vilja fólks til þess að uppfæra jafnréttisáætlun þannig að hún nái til fjölbreyttari hóps. Þetta verður tekið fyrir á vinnustofunum.“

Berglind segir að það séu að koma fjölbreytt mál inn á borð til Jafnréttisráðs, sem beri vott um þörf á að móta stefnu fyrir breiðari hóp. „Fjöldi starfsfólks af erlendum uppruna hefur aukist mikið, og í tengslum við það koma upp mál varðandi tungumál, inngildingu og fleira, sem dæmi,“ segir Berglind. Ísland hefur staðið framarlega á sviði jafnréttismála, en Berglind fór ásamt Sæunni Gísladóttur, sérfræðingi RHA og starfsmanni Jafnréttisráðs á 68. þing Kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna sem er stærsta árlega samkoma SÞ um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Þingið var haldið í New York í mars. 

Sæunn og Berglind fyrir utan byggingu Sameinuðu Þjóðanna í New York. Mynd: www.unak.is 

„Þetta var alveg mögnuð ferð,“ segir Berglind. Hún bjó í New York áður, en hafði aldrei komið inn í volduga byggingu Sameinuðu þjóðanna á Manhattan, þar sem allir þjóðarfánarnir rísa til himins, hlið við hlið fyrir utan. „Það var mikill kraftur sem fylgdi því að hitta allar þessar konur, frá öllum þessum löndum. Antonío Guterres setti ráðstefnuna, og setti strax tóninn með því að segja að nauðsynlegt væri að bregðast við því bakslagi sem orðið hefur í réttindabaráttu kvenna víða um heim.“  

Erindi ráðstefnunnar voru fjölmörg, á mismunandi stöðum og hefur Berglind orð á því að hún myndi vilja fara aftur og ná þá að skipuleggja sig enn betur. „Reynsluboltarnir í sendinefndunum voru með excelskjöl og skothelda skipulagningu,“ segir Berglind. „Það sem stendur upp úr fyrir mér, var erindið Breaking Chains: Women’s quest for life in Gaza, en þar var rætt um raunveruleika kvenna og stúlkna á átakasvæði. Það hreyfði mikið við mér.“

Berglind á einu af ótalmörgum erindum ráðstefnunnar í New York. Aðsend mynd

Formaður Jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri er skipaður til tveggja ára í senn af rektor skólans en jafnréttisráð hefur frumkvæði og eftirlit með að jafnréttisáætlun háskólans sé framfylgt. Nemendur hafa tvo fulltrúa í ráðinu, svo eru fulltrúar meðal kennara og starfsfólks af öllum sviðum skólans. Jafnréttisráð fundar tvisvar á ári með fulltrúum jafnréttisráða hinna háskólanna á landinu á Samráðsvettvangi jafnréttisfulltrúa háskólanna. „Við skipuleggjum fræðsludaga með Samráðsvettvanginum og höldum svo Jafnréttisdaga einu sinni á ári,“ segir Berglind. „Jafnréttisráð HA hefur svo verið að bjóða upp á fræðslu fyrir stjórnendur skólans, til dæmis kom Herdís Sólborg Haraldsdóttir um daginn með erindi um inngildingu og fjölbreytileika.“

„Við erum svo alltaf reiðubúin að taka við ábendingum og fyrirspurnum frá starfsfólki og stúdentum skólans varðandi jafnréttismál innan háskólans. Við fáum reglulega ýmis mál inná borð til okkar og reynum við að aðstoða fólk við að koma þeim málum í réttan farveg. En svo er líka kominn hnappur á heimasíðu skólans þar sem hægt er tilkynna um ofbeldi eða einelti. Fólk er kannski hikandi við að nýta sér það, en það sem gerist fyrst er einfaldlega viðtal við fagaðila. Síðan er hægt að taka ákvörðun um framhaldið.“