Fara í efni
Fréttir

Fullveldinu fagnað við Íslandsklukkuna

Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, hringir Íslandsklukkunni. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Venju samkvæmt fagnaði Háskólinn á Akureyri fullveldisdeginum með því að hringja Íslandsklukkunni. Að þessu sinni var það Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, sem hringi klukkunni. Akureyri.net var að sjálfsögðu á staðnum og fangaði augnablikið í mildu desemberveðri og smá snjókomu. 

Jólalest HA hefur farið um húsnæði háskólans í morgun til að minna á mikilvægi fullveldisdagsins og gleðja stúdenta og starfsfólk. Um kl. 11:20 var svo komið að því að hringja Íslandsklukkunni. Hún hljómaði 23svar sinnum, einu sinni fyrir hvert ár sem hún hefur staðið á stallinum við Háskólann á Akureyri. 


Fámennt en góðmennt við stutta athöfn þar sem Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor HA, flutti ávarp áður en Íslandsklukkunni var hringt. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor HA, flutti stutt ávarp áður en Sólveig Birna prílaði í snjó og hálku upp að klukkunni sjálfri og tók til við að hringja klukkunni. 

Elín Díanna ræddi um mikilvægi stúdenta í sjálfstæðis og fullveldisbaráttu Íslendinga. Það sem er svo skemmtilegt að eiginlega fljótlega eftir að fullveldisdagurinn var haldinn í fyrsta skipti 1918, í byrjun þriðja áratugarins, taka stúdentar þessa hátíð upp á arma sína og eru í raun ábyrgir fyrir þeim hátíðarhöldum sem hafa verið á þessum degi flesta áratugi síðustu aldar. Við höfum reynt að halda í þetta því að í grunninn, hvað er frjáls þjóð án góðrar menntunar? Þannig að það er vel við hæfi að við lyftum svolítið upp, bæði stúdentum, háskólamenntun og verum meðvituð um þá ábyrgð sem við sem háskólastofnun á Íslandi berum í rauninni í tengslum við sjálfstæði og fullveldi þessarar þjóðar. Til að fagna því er bjöllunni okkar hringt árlega og í þetta skipti, eftir langa bið, er loksins komið að Sólveigu Birnu, forseta stúdenta, að bera þann heiður að hringja bjöllunni,“ sagði Elín Díanna meðal annars.


Stigið á stokk, eða bekk, öllu heldur. Elín Díanna flutti ávarp áður en klukkunni var hringt. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

 Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, hringir Íslandsklukkunni. Myndir: Haraldur Ingólfsson.