Fara í efni
Fréttir

Forsetinn heiðursgestur á háskólahátíð HA

Forseti Íslands tók síðast þátt í viðburði í Háskólanum á Akureyri þegar málþing var haldið í mars í tilefni 20 ára afmælis Lagadeildar skólans. Frá vinstri: Mikael Karlsson, prófessor í heimspeki og fyrrverandi forseti Félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri, Guðni Th. Jóhannesson og Rachael Lorna Johnstone, prófessor og deildarforseti Lagadeildar HA. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er heiðursgestur á háskólahátíð – brautskráningu frá Háskólanum á Akureyri (HA), sem fram fer í lok vikunnar. Hann mun ávarpa kandídata sem brautskrást úr grunnnámi á laugardaginn.

„Frá árinu 2014 hefur Háskólinn á Akureyri boðið heiðursgesti að ávarpa kandídata á þessum merkisdegi. Þessi siður hefur heppnast vel og nú bætist forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, í öflugan hóp heiðursgesta,“ er haft eftir Eyjólfi Guðmundssyni, rektor HA, á vef skólans. Guðni er ekki einungis forseti landsins, segir rektor, „heldur og virkur fræðimaður ásamt því að vera vel kunnugur háskólum landsins og alþjóðlegu háskólasamfélagi. Það fer því sérstaklega vel á því að hann veiti kandídötum heilræði nú þegar þau standa á merkum tímamótum í lífi sínu – tímamótum sem háskólamaðurinn og prófessorinn Guðni Th. þekkir vel. Það er okkur því mikill heiður að forseti okkar allra hafi þegið boð um að vera heiðursgestur háskólahátíðar Háskólans á Akureyri árið 2023,“ segir Eyjólfur Guðmundsson.