Fara í efni
Fréttir

Fínna svifrykið hættulegra

Svifrykið er að megninu til tengt umferð bíla á beinan eða óbeinan hátt.

Fram hefur komið í fréttum hér á Akureyri.net að malbik hafi mælst rúmlega þriðjungur við upprunagreiningu svifryks við gatnamót Glerárgötu og Strandgötu á mælingartímabilinu frá nóvember 2020 fram í júní 2021. En hvað er átt við með svifryki? Akureyri.net heldur áfram að rýna í skýrsluna Upprunagreining svifryks á Akureyri, rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar 2020-21. Í skýrslunni eru ekki aðeins niðurstöður úr rannsókninni heldur einnig fróðleikur um svifryk og reglur varðandi heilsuverndarmörk og magn svifryks.

Í skýrslunni er meðal annars farið yfir mismunandi tegundir svifryks, sem getur verið bæði af náttúrulegum toga og af mannavöldum. Svifryk er líka flokkað eftir stærð agnanna, eftir því sem agnirnar eru smærri er svifrykið talið hættulegra heilsu fólks því þá berast agnirnar lengra niður í fínni vefi lugnanna þar sem það safnast safnst upp og getur valdið meiri skaða, eins og segir í skýrslunni.

Uppruni svifryks getur verið af ýmsum toga, bæði náttúrlegum og af mannavöldum. Heilsuverndarmörk fyrir svifryk hafa verið sett í reglugerð nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings ...

Markmið reglugerðarinnar eru að viðhalda gæðum andrúmslofts þar sem þau eru mikil en bæta þau ella að því er varðar m.a. svifryk og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti. Samkvæmt reglugerðinni má meðaltalssólarhringsstyrkur fyrir svifryk vera hæstur 50 µg/m3 og má styrkurinn fara að hámarki 35 sinnum á ári yfir þessi mörk. Einnig eru sett umhverfismörk fyrir ársmeðaltalsstyrk svifryks sem má vera hæstur 40 µg/m3 fyrir PM10 og 20 µg/m3 fyrir PM2,5. Svifryki er gjarnan skipt í tvo flokka sem oft eru mældir sérstaklega þ.e. fínt svifryk (PM2,5) sem er minna en 2,5 míkrometrar (µm) og gróft svifryk (PM10) sem er minna en 10 µm. Þetta eru agnir sem svífa auðveldlega um í andrúmsloftinu og eiga því greiða leið ofan í öndunarfærin. Eftir því sem rykið er fínna er það talið hættulegra heilsu fólks þar sem það berst lengra niður í fínni vefi lungnanna þar sem það safnast upp og getur valdið meiri skaða. PM10 svifryk er mælt á Akureyri í mælistöð við Strandgötu, andspænis Hofi menningarhúsi, ásamt því
að mæla styrk NO2, SO2 og skrásetja veðurfarsupplýsingar. Mæliniðurstöður eru birtar jafnóðum á
vefsíðu Umhverfisstofnunar, www.loftgaedi.is.