Fara í efni
Fréttir

Meiri þvott, minni hraða, færri nagla

Á meðal þess sem kannað verður sem hluta af aðgerðum til að sporna gegn svifryki er að lækka umferðarhraða, ýmist varanlega eða tímabundið eftir aðstæðum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Helstu aðgerðir sem vænta má til að sporna gegn svifryki eru meiri og tíðari vatnsþvottur gatna, mögulega minni notkun hálkuvarnarefna á götum og í einhverjum tilvikum að draga úr umferðarhraða. Þetta kemur fram í svari Andra Teitssonar, formanns umhverfis- og mannvirkjaráðs, við fyrirspurn frá Akureyri.net í framhaldi af frétt í gær um upprunagreiningu svifryks. 
 
Andri Teitsson segir ekkert í skýrslunni koma bæjaryfirvöldum sérstaklega á óvart. Við hljótum að draga þá ályktun að uppruni svifryksins sé göturnar og umferðin, í tvennum skilningi, þ.e. bæði að efnin eigi uppruna sinn að mestu leyti í malbiki og hálkuvarnarefnum, og svo að það sé bílaumferðin sem í fyrsta lagi mylur þessi efni niður jafnt og þétt, og í öðru lagi að bílaumferðin þyrli þessum efnum upp þegar aðstæður eru óhagstæðar, þ.e. götur snjólausar, þurrar og óhreinar,“ segir Andri. 
 
Endurskoðun verklagsreglna hraðað
 
Umhverfis- og mannvirkjaráð ákvað í framhaldi af kynningu skýrslunnar að hraða endurskoðun á verklagsreglum fyrir svifryksaðgerðir Akureyrarbæjar í samvinnu við Vegagerðina og Heilbrigðiseftirlitið þannig að þær liggi fyrir í september. Verklagsreglurnar eins og þær eru núna eru frá 2020 og ekki hægt að segja að þær séu mjög ítarlegar, frekar eins og punktar í glærukynningu. 
 
Í verklagsreglunum er meðal annars forgangsröðun gatna þar sem aðgerðum gegn svifryki er beitt (1. stofnbrautir og götur í eigu Vegagerðar, 2. tengibrautir, 3. safngötur, 4. húsagötur). Þar kemur einnig fram hvaða aðferðum er beitt við rykbyndingu, þ.e. með vatni, sjó, pækli og MgCI, eða magnesíumklóríði, sem sagt er hafa þann kost að það sé hægt að nota í miklu frosti og það bindi raka enn lengur í götunni. Sópun gatna fer í fyrsta lagi eftir útboðsverkinu Hreinsun gatna, en að öðru leyti sópað alltaf eftir þvott í vorhreinsun og svo eins og þurfa þykir í sumar-, haust- og vetrarhreinsun. Götur eru sópaðar þegar þær eru alveg auðar og ófrosnar og hitastig í götu er vel yfir frostmanrki, einnig í tengslum við framkvæmdir og þar sem safnast hefur svifryk. 
 

Upprunagreining svifryks sem frá er sagt í skýrslunni fór fram á sýnum sem tekin voru á gatnamótum Glerárgötu og Strandgötu.

„Svo eru það nagladekkin“

Við endurskoðun á verklagsreglum munum við til dæmis ræða um að þvo göturnar betur og oftar, við sáum núna í vor að það gaf góða raun, sem sagt að ekki bara sópa heldur þvo með miklu vatni. Einnig munum við ræða um að draga úr notkun á hálkuvarnarefnum á götum (en ekki á gangstéttum og stígum) og hugmyndafræðin væri þá sú að bílstjórar þurfi að aka mjög varlega eða að skilja bílinn eftir heima einhverja daga á ári,“ segir Andri.

Hann bendir einnig á að kanna þurfi möguleika á að draga úr umferðarhraða og vísar þá hvort tveggja til varanlegrar lækkunar á tilteknum götum, en einnig tímabundinna lækkana þegar aðstæður varðansi svifryk eru slæmar. Svo eru það nagladekkin, við munum væntanlega hvetja fólk til að hugleiða að kaupa næst naglalaus vetrardekk, að minnsta kosti fyrir þá bíla sem ekki er reglulega verið að nota til langferða út fyrir bæinn.

Ný rannsókn ekki gerð í bráð

Andri segir kostnað við rannsóknina sem sagt var frá hér á Akureyri.net í gær, þ.e. Upprunagreiningu svifryks á Akureyri, rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar 2020-21, vera mikinn og spurning hvort frekari rannsóknir muni breyta nokkru um það hvaða aðgerða verður gripið til. Hann segist því ekki eiga von á að önnur sambærileg rannsókn verði gerð alveg í bráð.