Fara í efni
Fréttir

Fimm ákærðir vegna hoppukastalaslyssins

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fimm hafa verið ákærðir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi vegna fjögurra barna sem slösuðust þegar hoppukastali á Akureyri tókst á loft 1. júlí árið 2021. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld. Þar er því haldið fram að einn fimmmenninganna sé Heimir Örn Árnason, núverandi forseti bæjarstjórnar á Akureyri, annar þeirra sem var í forsvari fyrir leigjanda kastalans, Knattspyrnufélag Akureyrar. Hann vildi ekki tjá sig um málið að sögn RÚV.

„Sakborningunum fimm er gert að sök að hafa sýnt stórfellt aðgæsluleysi og vanrækslu við að tryggja öryggi í leiktækinu,“ segir í frétt RÚV.

„Málið höfðar saksóknari vegna fjögurra barna, en tvö þeirra handleggsbrotnuðu í slysinu, eitt braut herðablað en fjórða barnið hlaut alvarlega áverka. Klara, sem var þá sex ára, var flutt á gjörgæslu á Landspítala og var um tíma í lífshættu vegna áverkanna. Fjölskylda hennar hefur greint frá því hún nái aldrei fullri heilsu eftir slysið,“ segir RÚV.

Hoppukastalinn er í eigu fyrirtækisins Perlan ehf. sem leigði KA kastalann. Í ákærunni kemur skýrt fram, segir RÚV, að eigandi kastalans skyldi sjá um að setja hann niður og festa hann við jörðu.

Smellið hér til að sjá frétt á vef RÚV

Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net um hoppukastalaslysið 1. júlí 2021