Fara í efni
Fréttir

Hoppukastali fauk, einn með sjúkraflugi suður

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Nokkrir slösuðust þegar sterk vindhviða varð til þess að eitt horn hoppukastalans Skrímslisins við Skautahöllina á Akureyri lyftist hressilega. Sjö voru fluttir á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri og lögreglan greindi frá upp úr klukkan 16.00 að einn hefði verið fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi.

Um 100 manns voru í kastalanum að sögn lögreglu, aðallega börn. Fjöldi lögreglu- slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er á svæðinu, auk fólks frá Rauða krossinum og björgunarsveitinni Súlum. Opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð í Skautahöllinni þar sem boðin er áfallahjálp.

Skrímslið er sagt stærsti hoppukastali Evrópu, 1600 fermetrar að flatarmáli.

Lögregla biðlar til fólks um að koma EKKI á svæðið til að forvitnast, svo bílaumferð verði ekki mikil. Það skipti miklu máli fyrir þá sem eru að störfum að verða ekki fyrir truflun.

Sterk sunnan átt hefur verið á Akureyri undanfarið, mjög hefur dregið úr vindi í dag en í vindhviðu rifnuðu festingar þannig að hluti kastalans tókst á loft og fólk kastaðist til.

UPPFÆRT KLUKKAN 17.46 - Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar í Reykjavík sem er eigandi hoppukastalans, segir við mbl.is að 63 hafi verið í kastalanum, ekki 108 eins og fyrst kom fram í tilkynningu lögreglunnar. Gunnar segist ekki ætla að opna kastalann aftur á Akureyri. Smellið hér til að lesa frétt mbl.is.

Fréttin verður uppfærð