Fara í efni
Fréttir

Héraðsdómi gert að endurmeta rannsóknargögn

Skrímskið tekið niður skömmu eftir slysið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar í gær skal endurmeta rannsóknargögn vegna slyss sem varð þegar Skrímslið svokallaða, risastór hoppkastali, lyftist í mikilli vindhviðu við suðurenda Skautahallarinnar á Akureyri þann 1. júlí 2021. Þetta kom fram í fréttum Rúv í gær.

Þrír lögmenn höfðu farið fram á endurmat á rannsóknargögnum þannig að ítarlegra mat yrði lagt á sönnunargögn málsins áður en aðalmeðferð þess hæfist, meðal annars hvernig hefði átt að festa Skrímslið þannig að öruggt mætti teljast og hve öflug vindhviðan var og hvort hana hefði mátt sjá fyrir með einhverjum hætti.

Með úrskurði sínum snýr Landsréttur við úrskurði héraðsdómara á Norðurlandi eystra frá því í apríl, þar sem beiðni lögmannanna var hafnað.