Fara í efni
Fréttir

Dóttir Sigurðar var á vakt í flugturninum

Björg Unnur Sigurðardóttir flugumferðarstjóri var á vakt í flugturninum á Akureyri þegar faðir hennar kom með sjúkraflugi frá Spáni í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Það var ótrúleg tilviljun og skemmtileg að Björg Unnur Sigurðardóttir flugumferðarstjóri skyldi vera á vakt í flugturninum á Akureyri í gær þegar sjúkraflugvél lenti á vellinum með Sigurð Kristinsson. Hann hafði legið á sjúkrahúsi á Spáni síðan um miðjan ágúst eftir að hann hlaut alvarlegt heilablóðfall eins og Akureyri.net hefur greint frá.

Björg Unnur er dóttir Sigurðar. Löngu var búið að raða flugumferðarstjórum á vaktir og ekki skýrðist endanlega fyrr en á þriðjudag að flogið yrði með Sigurð til Íslands daginn. Tilviljun réð því sem sagt að dóttir Sigurðar var á vakt þegar hann kom heim. Þess má geta að Björg Unnur hefur starfað sem flugumferðarstjóri á Akureyri í 21 ár og Sigurður faðir hennar vann í um það bil 30 ár við afgreiðslu hjá Flugfélagi Íslands á Akureyrarflugvelli.

„Mér finnst mjög gott að vera hér í dag. Eftir að hafa verið í þessu verkefni með pabba er ótrúlega gott að vera komin í hversdagslega rútínu aftur; maður metur hversdagslegu hlutina meira en áður,“ sagði Björg Unnur við Akureyri.net í gær. Blaðamaður var hjá henni í flugturninum þegar vélin lenti.

Systurnar Rúnar Kristín og Björg Unnur hafa dvalið talsvert hjá föður sínum á Spáni eftir að hann veiktist. Rúna Kristín kom með sjúkraflugvélinni í gær, Björg Unnur fór frá Spáni um helgina í stutt ferðalag um meginlandið sem hún hafði skipulagt áður og kom ekki heim til Akureyrar fyrr en á þriðjudagskvöldið.

„Við Rúna fórum aftur út um mánaðamótin. Við vissum ekki hvernig staðan á pabba var og fengum engar upplýsingar frá sjúkrahúsinu. Þorðum því ekki annað en fara. Honum leið mjög illa fyrstu dagana en var greinilega í góðri meðferð og hresstist mikið fljótlega. Þá fórum við á fullt í það verkefni að koma honum heim, sáum að ekki var hægt að hafa hann þarna úti í einhvern óráðinn tíma. Við vorum líka orðnar mjög þreyttar, það er mikið álag að standa í þessu.“

Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir sjúkrahúsdvöl Sigurðar á Spáni og alla meðferð þar en fjölskyldan þarf að greiða fyrir flutninginn heim til Íslands. Björg Unnur segir því mikla góðvild fólks almennt skipta gríðarlegu máli, eftir að söfnun var hrundið af stað, og sköpum hafi skipt að fjölskylda Gísla Finnssonar sem fluttur var heim með sjúkraflugi frá Spáni á dögunum skyldi leggja söfnun fjölskyldu Sigurðar lið.

„Heima er best! Þetta er ólýsanlegur léttir“

Sigurður er kominn heim til Akureyrar

Sigurður kemur heim til Akureyrar á morgun

Sigurður alvarlega veikur á Spáni ...