Fara í efni
Fréttir

„Heima er best! Þetta er ólýsanlegur léttir“

Rúna Kristín, dóttir Sigurðar Kristinssonar, ræðir við Óðin Svan Óðinsson fréttamann RÚV á Akureyrarflugvelli í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

„Heima er best! Þetta er ólýsanlegur léttir,“ sagði Rúna Kristín Sigurðardóttir við Akureyri.net í dag, eftir að hún lenti á Akureyrarflugvelli ásamt Sigurði föður sínum, sem legið á sjúkrahúsi á Spáni síðan um miðjan ágúst þegar hann fékk alvarlegt heilablóðfall. Með í för voru læknir og hjúkrunarfræðingur.

„Það er alltaf gott að sjá Akureyri en sjaldan eins og núna og það er mikill léttir að þessum kafla sé lokið,“ sagði Rúna, sem hefur dvalið í tæpan hálfan mánuð hjá föður sínum ytra að þessu sinni en þær systur, hún og Björg Unnur, höfðu verið úti í töluverðan tíma áður.

Ekki varð endanlega ljóst fyrr en í gær að Sigurður yrði fluttur heim til Akureyrar í dag. „Þá kom starfsfólk flugvélarinnar til að skoða pabba og gáfu endanlega grænt ljós á að þeir gætu flogið með hann í dag.“

Rúnar segir flugið hafa gengið tiltölulega vel. „Það fór vel um okkur, við millilentum í Glasgow til að taka eldsneyti og fengum að rétta aðeins úr okkur. Pabba leið ágætlega, hann var svolítið kvíðinn en ég held þó að tilhlökkunin hafi verið meiri.“

Sigurður er með meðvitund og getur tjáð sig „en svaf meirihluta leiðarinnar.“ Hann var fluttur rakleiðis á lyfjadeild SAk og þarf að vera í einangrun í nokkra daga þar sem hann var að koma af sjúkrahúsi á Spáni, að sögn Rúnu. „Svo tekur tíma fyrir starfsfólk að átta sig á stöðunni og ákveða hvert framhaldið verður. Vonandi verður hægt að hefja einhvers konar endurhæfingu fyrr en síðar.“

Rúna Kristín vildi ítreka þakkir fjölskyldunnar til Íslendinga eftir að fjársöfnun var hrundið af stað til að fjármagna flugið heim. „Sérstaklega vil ég þakka aðstandendum Gísla Finnssonar sem hjálpuðu okkur mikið,“ segir Rúna, en Gísli var í sömu stöðu og Sigurður að því leyti að flytja þurfti hann með sjúkraflugi heim frá Spáni og fjölskyldan að greiða fyrir. Safnað var fyrir kostnaðinum, það gekk svo vel að fjölskylda Gísla var aflögufær og styrkti söfnun fjölskyldu Sigurðar.