Fara í efni
Fréttir

Sigurður kemur heim til Akureyrar á morgun

Sigurður Kristinsson á sjúkrahúsi á Spáni þar sem hann hefur verið síðan um miðjan ágúst.

Sigurður Kristinsson, sem hefur legið á sjúkrahúsi á Spáni síðan um miðjan ágúst þegar hann fékk alvarlegt heilablóðfall, kemur heim til Akureyrar á morgun með sjúkraflugi. Með í för verða dóttir hans, læknir og hjúkrunarfræðingur.

Fjársöfnun var hrundið af stað fyrir nokkrum dögum vegna þess að fjölskylda Sigurðar varð að standa straum af flutningi hans heim til Íslands. Á þeim stutta tíma hefur tekist að safna fyrir stærstum hluta sjúkraflugsins og vilja aðstandendur Sigurðar þakka, frá dýpstu hjartarótum, öllum sem lögðu verkefninu lið, að sögn Bjargar Unnar dóttur hans.

Björg Unnur nefnir að til dæmis hafi borist framlag úr söfnun aðstandenda Gísla Finnssonar, Íslendings sem fannst meðvitundarlaus fyrir utan veitingastað í Torrevieja á Spáni síðari hluta ágúst, og lá einnig á sjúkrahúsi ytra en kom heim um síðustu helgi. Söfnun fór einnig fram til að fjármagna flug Gísla heim til Íslands. 

„Það er óhætt að segja að landsmenn hafi staðið við bak samlanda sinna í erfiðleikum á erlendri grundu,“ segir Björg Unnur.

Sigurður, sem er 71 árs, kemur með vél norska flugfélagsins Airwings frá Murcia flugvelli á Spáni til Akureyrar.

Frétt Akureyri.net um veikindi Sigurðar er hér