Fara í efni
Fréttir

Byrjað að reisa grind flugstöðvarinnar

Nú fer loksins eitthvað að rísa. Menn við vinnu á Akureyrarflugvelli í dag. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Vinna er hafin við að reisa grind nýrrar flugstöðvarbyggingar á Akureyrarflugvelli, eða byggingar til stækkunar á núverandi flugstöð. Langþráð skref, myndu sennilega flestir sem málið varðar segja um málið.

Viðbyggingin sem nú fer brátt að rísa verður 1.100 fermetrar að stærð. Undirbúningur að stækkuninni hófst snemma árs 2020 og var þá kynnt sem hluti af flýtifjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar í lok mars þegar heimsfaraldur covid-19 var kominn á fulla ferð hér á landi. Í fyrsta útboði barst aðeins eitt tilboð og var því á endanum hafnað og verkið boðið út aftur. Það var síðan í lok árs 2021 sem Isavia samdi við Byggingafélagið Hyrnu sem átti lægra tilboðið af tveimur sem bárust í verkið í endurútboðinu. Samningsupphæðin var við undirritun 810,5 milljónir króna.


Staðan í dag. Menn í gulum vinnujökkum með hjálma að athafna sig á byggingastað viðbyggingar flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Verk í þremur áföngum

Framkvæmdir á Akureyrarflugvelli verða í þremur áföngum, að því er fram kom í frétt Isavia 28. desember 2021 þegar samningurinn við Hyrnu var undirritaður. „Sá fyrsti snýr að nýrri viðbyggingu við flugstöðina. Í öðrum áfanga verður núverandi komusvæði flugstöðvarinnar endurbyggt og þar er áætlað að nýtt innritunarsvæði verði. Nýtt skyggni og töskubílaskýli verður þá einnig byggt með tilheyrandi malbikun. Í þriðja og síðasta áfanga verða núverandi innritunarsvæði og skrifstofuhluti endurbyggð.“


Unnið var að því að hífa stálbitana í grind byggingarinnar úr gámum þegar Akureyri.net leit við á Akureyrarflugvelli síðdegis í dag. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Hér er öfug tímaröð og myndir til upprifjunar.

28. desember 2021: Isavia Innanlandsflugvellir semja við Byggingafélagið Hyrnu um stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli | Isavia
3. nóvember 2021: Tvö tilboð í stækkun flugstöðvarinnar | akureyri.net
7. september 2021: Flugstöðin verður boðin út á ný | akureyri.net
15. júní 2021: Flugstöð - fyrsta skóflustunga | akureyri.net


Svona mun hún líta út að framkvæmdum loknum.


Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tekur fyrstu skóflustunguna í júní 2021. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.