Fara í efni
Fréttir

Baldvinssjóður styrkir MA og Kvennaathvarfið

Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, Helga Guðrún Númadóttir og Steinunn Alda Gunnarsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fé var í gær úthlutað úr Minningarsjóði Baldvins Rúnarssonar, sem lést vorið 2019 aðeins 25 ára, eftir fimm ára baráttu við krabbamein. Baldvin var fæddur 15. janúar 1994 og hefði því orðið 27 ára í gær.

Sjóðurinn færði Kvennaathvarfinu Ipad tölvu auk 300 þúsund króna styrks, en gjöfinni er ætlað að bæta aðstöðu fyrir börn sem dvelja í athvarfinu á Akureyri. Það var sett á laggirnar í fyrrahaust og full þörf hefur reynst fyrir það. Signý Valdimarsdóttir félagsráðgjafi og verkefnastýra Kvennaathvarfsins á Norðurlandi eystra tók við gjöfinni sem þau afhentu, Ragnheiður Jakobsdóttir, móðir Baldvins, og vinur hans, Ingólfur Árnason. Þau eru bæði í stjórn sjóðsins.

Þá var gamla skólanum hans Baldvins, Menntaskólanum á Akureyri, veittur 400 þúsund króna styrkur sem nota skal til kaupa á tækjum í útiæfingaaðstöðu sem verið er að koma upp við skólann. Baldvin heitinn varð stúdent frá MA 2014. Það voru frænkur Baldvins, Helga Guðrún Númadóttir og Steinunn Alda Gunnarsdóttir, sem afhentu Jóni Má Héðinssyni skólameistara gjöfina.

Tæpum átta milljónum króna hefur verið úthlutað frá stofnun sjóðsins.

  • Minningarsjóður Heimahlynningar – peningagjöf
  • Kraftur – peningagjöf
  • DM félagið – peningagjöf
  • Baldvinsstofa í Hamri – fullbúin æfingasalur
  • Hetjurnar félag langveikra barna – peningagjöf
  • Sjúkrahúsið á Akureyri – meðferðarstóll á göngudeild
  • Glerárskóli – myndavél og hátalari
  • Stofnaður var heilsueflingarsjóður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis – peningagjöf
  • Menntaskólinn á Akureyri – peningagjöf til kaupa á íþróttatækjum.
  • Kvennaathvarfið á Norðurlandi eystra – peningagjöf og Ipad
Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála. Síðasta vetur fór fram minningarleikur í knattspyrnu þegar Þór og Magni mættust í Kjarnafæðimótinu og rann þá aðgangseyrir í sjóðinn. Til stóð að halda annan minningarleik nú en það reyndist ekki mögulegt vegna sóttvarnarreglna.
 
Vilji fólk leggja sjóðnum til fé eru hér nauðsynlegar upplýsingar:
 
Reikningsnúmer: 565 - 14 - 603603
Kennitala: 670619 - 0950
 
 
Ragnheiður Jakobsdóttir, Signý Valdimarsdóttir, verkefnastýra Kvennaathvarfsins á Norðurlandi eystra, og Ingólfur Árnason. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.