Fara í efni
Fréttir

Afrískir flóttamenn setjast að í Hrísey

Theo, Ivan, Micho og Everest fyrir utan nýtt heimnili sitt í Hrísey. Mynd af vef Hríseyjar.

Fjórir afrískir flóttamenn hafa sest að í Hrísey í kjölfar samnings sem Akureyrarbær gerði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks á þessu ári. Bærinn samdi um að taka á móti allt að 350 flóttamönnum til áramóta – smellið hér til að sjá frétt um samninginn.

Akureyrarbær skrifaði undir samning um að taka þátt í samræmdi móttöku flóttafólks á árinu 2023 „og gefa þannig hópi fólks tækifæri á nýju og betra lífi,“  segir á heimasíðu Hríseyjar um helgina.

„Það er langt og flókið ferli að fá hæli á Íslandi og alls ekki öll þau sem hingað koma sem fá leyfi til þess að vera,“  segir þar.

„Það leyfi fengu þeir Everest og Ivan frá Úganda, Micho frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Theobald frá Rúanda eftir margra ára vinnu og þriggja ára bið. Eru þeir nú að hefja nýtt líf hér hjá okkur í Hrísey. Leigja þeir herbergi með aðstöðu á Brekku núna í sumar og hefja störf hjá Hrísey seafood á næstu dögum.“

Hver þeirra hefur sína sögu að segja „sem þeir velja sjálfir hvenær og hvort þeir deili með okkur þegar þeir kynnast okkur betur. Það er þó víst að það sem þeir hafa upplifað og gengið í gegnum getum við fæst ef nokkur gert okkur í hugalund. Það sem við getum gert er að bjóða þá velkomna, sýna þeim hvernig samfélagið í Hrísey getur staðið saman og verið til staðar fyrir þá eins og aðra nágranna okkar. Þeir hafa áhuga á að taka þátt í samfélaginu, kynnast okkur og lífinu í Hrísey svo að heilsa, stoppa og spjalla á förnum vegi er kærkomið.

Er þetta í fyrsta sinn sem Hríseyingar taka á móti flóttafólki og eru þeir því að skrá sig á spjöld sögu Hríseyjar.“

Heimasíða Hríseyjar