Mætti ellefu ára gamall í þýskupróf í VMA!
Atli Freyr Einarsson er rúmlega þrítugur Akureyringur og starfar við umsjón tölvu- og tæknimála í báðum framhaldsskólunum á Akureyri. Hins vegar eru meira en 20 ár síðan hann hóf fyrst nám við VMA, aðeins tíu ára gamall!
Á vefsíðu VMA er skemmtilegt viðtal við Atla Frey, þar sem hann rifjar meðal annars upp söguna á bak við það þegar hann var skráður í fjarnám í þýsku við Verkmenntaskólann á Akureyri í upphafi ársins 2003. Atli er fæddur árið 1992 og var því aðeins tíu ára gamall þegar þetta var. Hann talaði hins vegar þýsku eins og innfæddur, enda fæddist hann í Þýskalandi. Foreldrar hans, Einar Brynjólfsson kennari og Helga Hákonardóttir hjúkrunarfræðingur, bjuggu þá í Þýskalandi þar sem Einar var við nám. Fjölskyldan flutti aftur til Íslands þegar Atli Freyr var sex ára gamall og héldu þýskukunnáttunni við með því að horfa á þýskt sjónvarpsefni gegnum gervihnött.
Mætti í sitt fyrsta próf í framhaldsskóla ellefu ára gamall
Atli segir það hafa verið að undirlagi föðurins að hann var skráður til náms í þýsku við VMA á vorönn árið 2003 en Einar var þá kennari við skólann. Um fjarnám var að ræða, þannig að Atli þurfti ekki að mæta í kennslustundir í skólanum en þegar kom að lokaprófinu í maí þetta ár þurfti stráksi að láta sjá sig. Hann rölti því sem leið lá að VMA og fann að lokum stofuna sem prófið var í. „Þar voru samnemendur mínir mættir sem og yfirsetukennari. Flestir ráku upp stór augu því auðvitað var afar fjarstæðukennt að pínulítill tíu-ellefu ára gutti - ég var alltaf minnstur í bekknum á þessum árum - væri mættur í þýskupróf í VMA! En eftir útskýringar um að ég hefði verið í þessum áfanga á önninni fékk ég að setjast við borð og þreyta prófið. Það gekk ljómandi vel, í það minnsta kom í ljós þegar ég lét nýverið fletta því upp í gömlum gögnum VMA að ég fékk 9 í lokaeinkunn í áfanganum,“ segir Atli Freyr í viðtalinu þegar hann rifjar upp þetta fyrsta sinn sem hann þreytti próf í framhaldsskóla.
Tíu ár milli fyrsta og síðasta áfangans í VMA
Hann segir að Wolfgang Frosti Sahr hafi kennt honum þennan fyrsta áfanga og Wolli hafi einnig kennt honum næsta þýskuáfanga, sem tekinn var strax þetta sama haust. Lokaeinkunn í það skiptið var 10 - en Atli beið síðan reyndar með þriðja áfangann þangað til fermingarárið sitt! Þegar „hefðbundnum“ framhaldsskólaaldri var náð hóf Atli Freyr nám við MA en ákvað að klára ekki síðustu önnina þar heldur snúa sér að eigin rekstri með félögum sínum. Það sem á vantaði til að ljúka stúdentsprófi tók hann í fjarnámi við VMA og útskrifaðist þaðan 21 árs að aldri árið 2013 - tíu árum eftir að hann hóf framhaldsskólagönguna við sama skóla!
Viðtalið við Atla Frey á vef VMA.
Menntun eða próf II
Menntun eða próf I
Fagurt er til fjalla
Framhaldsskóli fyrir nemendur