Fara í efni
Menntaskólinn á Akureyri

Þorsteinn leiðir starf stýrihóps ráðherra

Stýrihópur um eflingu framhaldsskóla. Frá vinstri: Hafþór Einarsson, Sigríður Hallgrímsdóttir, Þorsteinn Gunnarsson, Gylfi Arnbjörnsson og Anna María Gunnarsdóttir.

Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, leiðir starf stýrihóps mennta- og barnamálaráherra um eflingu framhaldsskóla ásamt Sigríði Hallgrímsdóttur, verkefnastjóra og fyrrverandi aðstoðarmanni menntamálaráðherra. Í hópnum er m.a. Akureyringurinn Hafþór Einarsson, sérfræðingar í mennta- og barnamálaráðuneytinu og fyrrverandi starfsmaður Akureyrarbæjar.

Meðal verkefna stýrihópsins er að kanna á möguleika á auknu samstarfi eða sameiningu framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, Menntaskólans og Verkmenntaskólans eins og Akureyri.net sagði frá í morgun. Hópurinn á að skila tillögum til ráðherra í áföngum til mennta- og barnamálaráðherra í maí, ágúst og október.

Öll geti lært og öll skipti máli

Tilkynnt var um skipan stýrihópsins fyrir skömmu. „Verkefni hópsins er að móta aðgerðir til að ná markmiðum menntastefnu stjórnvalda til 2030 og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu verk- og starfsnáms. Stefnan byggir á þeirri sýn að veitt skuli framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem öll geta lært og öll skipta máli. Tillögur hópsins munu einnig byggja á markmiðum stjórnvalda um að auka farsæld barna og ungmenna, m.a. með samþættingu kerfa, aukinni skólaþjónustu og hagræðingu, eftirfylgni og samvinnu,“ segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

Síðustu tillögur til ráðherra í október

„Stýrihópnum er falið að móta og leggja fram tillögur að aðgerðum sem snúa að framtíðarskipulagi framhaldsskólakerfisins og mæta samfélagslegum, faglegum og fjárhagslegum áskorunum framhaldsskólanna. Skólarnir standa frammi fyrir breytingum þar sem gera má ráð fyrir að nemendum í bóknámi muni fækka á komandi árum, bæði vegna fámennari árganga og vegna aukins hlutar starfs- og verknáms. Þetta kallar á breytingar á skipulagi, nýtingu húsnæðis og tilfærslu fjármuna innan kerfisins sem nýtast við að efla stuðning við nemendur og auka skólaþróun. Þá mun stýrihópurinn meta rekstrarforsendur framhaldsskólanna með hliðsjón af fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2024–2028 og gera tillögur að úrbótum þar sem við á. Við mótun aðgerða mun hópurinn sérstaklega hafa í huga að tryggja og efla gæði náms sem búi nemendur undir samfélagslegar áskoranir í síbreytilegum heimi auk þess að skólarnir hafi getu til að þjónusta fjölbreyttan hóp nemenda.

Hópinn skipa Þorsteinn Gunnarsson, fyrrv. rektor Háskólans á Akureyri, Sigríður Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri og fyrrv. aðstoðarmaður menntamálaráðherra, og Gylfi Arnbjörnsson, Anna María Gunnarsdóttir og Hafþór Einarsson, sérfræðingar í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þorsteinn og Sigríður leiða starf stýrihópsins en hópurinn mun eiga náið samráð við skólastjórnendur, kennara, nemendur og aðra hagaðila við mótun aðgerða. Tillögum verður skilað í áföngum til mennta- og barnamálaráðherra í maí, ágúst og október.“

Kanna möguleika á samvinnu eða sameiningu MA og VMA

Samstarf eða sameining? Um hvað snýst málið?