Fara í efni
Framhaldsskólar

Kvennalið bæjarins í eldlínunni í dag

Kvennalið bæjarins í handbolta, fótbolta og íshokkí verða öll í eldlínunni í dag, tvö á heimavelli en það þriðja fjarri heimabyggð.

Þór/KA spilar næstsíðasta leik sinn í Bestu deildinni í knattspyrnu á þessu tímabili í dag þegar liðið mætir FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. FHL er nú þegar fallið niður í Lengjudeildina, en Þór/KA er í 7. sætinu og hefur nú þegar tryggt Bestudeildarsætið, gerði það með sigri á Tindastóli í fyrsta leik í neðri hlutanum. FHL tapaði á útivelli fyrir Fram í fyrsta leiknum, sem þýddi að Fram hefur tryggt sér sæti í Bestu deildinni áfram, en Tindastóll fellur í Lengjudeildina með FHL.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
    Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði kl. 16:30 
    FHL - Þór/KA

Þór/KA vann báða leikina gegn FHL í deildinni í sumar, fyrir tvískiptingu. Þór/KA vann 5-2 í Fjarðabyggðarhöllinni snemma í maí og svo 4-0 í Boganum í ágústmánuði. Leiktíma á Reyðarfirði var breytt í morgun og leiknum seinkað um 90 mínútur vegna samgöngutruflana.

- - -

Kvennalið SA hefur unnið báða leiki sína til þessa í Toppdeildinni í íshokkí, fyrst 5-0 útisigur á Fjölni og svo 3-1 heimasigur gegn liði SR. Nú er komið að heimaleik gegn Fjölni, sem er án stiga í deildinni til þessa.

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
    SA - Fjölnir

- - -

KA/Þór hefur farið frábærlega af stað í Olísdeild kvenna í handknattleik í haust, hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína, gegn Selfossi, ÍBV og Stjörnunni, og situr í toppsætinu með sex stig, eina liðið sem ekki hefur tapað leik í fyrstu þremur umferðunum. Nú er að því að taka á móti liði Hauka, sem hefur þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 18
    KA/Þór - Haukar