Fara í efni
Framhaldsskólar

Handbolti: KA áfram – Þórsarar úr leik

Karlalið Akureyrar í handboltanum spiluðu bæði í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar, Powerade-bikarsins, í gær. KA vann öruggan sigur á ÍBV-2 í Eyjum eftir að hafa verið undir í leikhléi. Þórsarar voru slegnir út af ÍR-ingum með marki eftir aukakast á lokasekúndu leiksins þar sem þeim fannst þeir órétti beittir með því að leiktíminn var stöðvaður og ÍR-ingar fengu tóm til að stilla upp fyrir aukakastið.

Eyjamenn komust áfram með lið 2 úr sínum röðum eftir umdeildan sigur á Herði frá Ísafirði í fyrstu umferðinni. KA kom beint inn í 16 liða úrslitin og dróst á móti Eyjapeyjunum. Leikið var í Vestmannaeyjum.

Lið ÍBV2 var í bland skipað eldri leikmönnum, meðal annars með Sigurð Bragason og Sigurberg Sveinsson í sínum röðum, og höfðu Eyjamenn yfirhöndina eftir fyrri hálfleikinn, 16-14. KA seig síðan fram úr í seinni hálfleiknum og vann að lokum átta marka sigur, 33-25. Jens Bragi Bergþórsson skoraði átta mörk fyrir KA, en Sigurbergur Sveinsson var atkvæðamestur Eyjamanna með sex mörk.

ÍBV2
Mörk: Sigurbergur Sveinsson 6, Garðar Benedikt Sigurjónsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 4, Gabríel Martinez Róbertsson 3, Fannar Þór Friðgeirsson 2, Grétar Þór Eyþórsson 2, Sigurður Bragason 2, Aron Heiðar Guðmundsson 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.
Varin skot: Ekki skráð.
Refsimínútur: 2

KA
Mörk: Jens Bragi Bergþórsson 8, Logi Gautason 7, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 5, Morten Linder 4, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 3, Aron Daði Stefánsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 2.
Varin skot: Ekki skráð.
Refsimínútur: 6.

Leikskýrslan á vef HSÍ.

Umfjöllun um leikinn á handboltavefnum handbolti.is.

KA verður því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin.

„Flautumark “ í Breiðholtinu 

Þórsarar sóttu ÍR-inga heim í gær, en máttu bíta í það súra epli að tapa leiknum með eins marks mun, 33-32. Sigurmark ÍR kom eftir aukakast á lokasekúndu leiksins. Oddur Gretarsson skoraði langmest Þórsara, 11 mörk. Baldur Fritz Bjarnason skoraði 13 mörk fyrir heimamenn.

Þórsarar höfðu eins marks forystu eftir fyrri hálfleikinn, 16-15, og juku það forskot í byrjun þess seinni. ÍR-ingar náðu að jafna og var leikurinn jafn og spennandi til loka. Þegar innan við mínúta var til leiksloka jafnaði Kári Kristján leikinn í 32-32, en ÍR-ingar fengu aukakast í lokasókninni. Leikurinn var stöðvaður og þeir stilltu upp í aukakast sem Jökull Blöldal Björnsson skoraði úr. Í viðtali hjá Rúv eftir leikinn kvaðst Oddur Gretarsson ósáttur við að leiktíminn hafi verið stöðvaður þegar aukakastið var dæmt. Fyrir því hafi ekki verið nein ástæða.

ÍR
Mörk: Baldur Fritz Bjarnason 13, Bernard Kristján Owusu Darkoh 5, Eyþór Ari Waage 5, Róbert Snær Örvarsson 3, Elvar Otri Hjálmarsson 3, Jökull Blöndal Björnsson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1, Ólafur Rafn Gíslason 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 15/1 (32,6%).
Refsimínútur: 8.

Þór
Mörk: Oddur Gretarsson 11, Brynjar Hólm Grétarsson 7, Kári Kristján Kristjánsson 4, Þórður Tandri Ágústsson 4, Aron Hólm Kristjánsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1, Igor Chiseliov 1, Jón Ólafur Þorsteinsson 1, Þormar Sigurðsson 1
Varin skot: Nikola Radovanovic 14 (33,3%).
Refsimínútur: 10.

Leikskýrslan á vef HSÍ.

Umfjöllun um leikinn á handboltavefnum handbolti.is.

Lokaleikir 16 liða úrslitanna verða spilaðir í kvöld. Þá kemur í ljós hvaða lið verða ásamt KA í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin, en ljóst að þar verður nafn Þórs ekki með. Átta liða úrslitin fara fram skömmu fyrir jól.