KA getur gulltryggt sætið í Bestu deildinni

KA tekur á móti Vestra í dag, í þriðju umferð neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu. Mikið er í húfi; sigur í dag myndi tryggja KA áframhaldandi veru í efstu deild en leikurinn er ekki síður mikilvægur fyrir Ísfirðingana, því þeir eru í bullandi fallhættu en færu langt með að halda sér uppi með sigri.
- Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
Greifavöllurinn kl. 14
KA - Vestri
KA vann síðustu viðureign liðanna örugglega, 4:1, í lokaumferð deildarinnar fyrir skiptingu, á Greifavellinum um miðjan september.
Ísfirðingum hefur gengið afleitlega eftir að liðið varð bikarmeistari með sigri á Val 22. ágúst. Vestri náði sér í eitt stig í þremur umferðum frá bikarúrslitaleiknum fram að tvískiptingu Bestu deildarinnar og hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í neðri hlutanum með miklum mun, báðum á heimavelli. ÍA sigraði Vestra 4:0 og ÍBV bætti um betur með 5:0 sigri.
Til tíðinda dró í vikunni þegar Davíð Smára Lamude þjálfara Vestra var sagt upp og Jón Þór Hauksson, sem Akurnesingar létu taka pokann sinn síðsumars vegna afleits gengis, hefur verið ráðinn til að stjórna Vestra í lokaumferðunum. Hann verður í fyrsta sinn við stjórnvölinn í dag.
Leikur KA og Vestra er sá síðasti í þriðju umferð þeirrar „framlengingar“ Bestu deildarinnar sem nú stendur yfir. Líkurnar á að Ísfirðingar haldi sæti sínu í deildinni jukust í gær þegar KR og Afturelding gerðu 2:2 jafntefli í reyfarakenndum leik á heimavelli KR, Meistaravöllum. KR er neðst með 25 stig og Afturelding með 26, en Vestri er að vísu aðeins einu stigi þar fyrir ofan þannig að allt getur gerst og vert að nefna að í lokaumferðinni, 25. október, mætast Vestri og KR á Ísafirði.
ÍA, sem var lengi neðst í deildinni, hefur heldur betur rétt úr kútnum undir stjórn Lárusar Orra Sigurðssonar; ÍA hefur nú unnið fimm leiki í röð og er fimm stigum fyrir ofan fallsæti. ÍA vann ÍBV 2:0 í Eyjum í gær.