Fara í efni
Framhaldsskólar

Heimaleikir í íshokkí, fótbolta og körfubolta

Íþróttaáhugafólk getur haft nóg fyrir stafni næstu daga ef tími og áhugi eru til staðar. Heimaleikur í íshokkí á þriðjudag, hægt að bregða sér til Húsavíkur á blakleik á miðvikudag, fótbolti í Bestu deild kvenna í Boganum á fimmtudag, fyrsti heimaleikur karlaliðs Þórs í körfuboltanum á föstudag og þar að auki útileikir hjá Akureyrarliðunum í handboltanum á miðvikudag, fimmtudag og föstudag og í blaki á föstudag. Helgin verður síðan með rólegra móti, að minnsta kosti í íþróttaheiminum á Akureyri.

ÞRIÐJUDAGUR 7. OKTÓBER - íshokkí

Forkeppni Toppdeildar karla í íshokkí lýkur með leik SA og SR á þriðjudagskvöld í Skautahöllinni á Akureyri.

SA hefur nú þegar unnið bæði U22 liðin, Jötna og Húna, og vann Fjölni í framlengingu í fyrsta leik sínum á tímabilinu. SR-ingar hafa unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum, unnu örugga sigur á Fjölni, mörðu Jötna 4-3, en töpuðu fyrir Húnum. Þegar upp er staðið eru leikir liðanna í forkeppninni þó ekki nema góður undirbúningur fyrir alvöruna því stigin úr forkeppninni skipta engu máli upp á framhaldið. 

  • Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SA - SR

Eins og áður hefur komið fram styttist í Evrópuleiki SA Víkinga, sem verða í Vilnius í Litháen um aðra helgi. Það eru næstu verkefni SA Víkinga áður en alvaran í Toppdeildinni tekur við viku síðar.

MIÐVIKUDAGUR 8. OKTÓBER - handbolti, blak

Eftir að KA/Þór hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína í Olísdeildinni kom fyrsti tapleikurinn í 4. umferðinni gegn Haukum. KA/Þór deilir toppsætinu með Val og ÍBV að loknum fjórum umferðum, en liðin hafa öll unnið þrjá leiki og tapað einum.

  • OLÍS-deild kvenna í handknattleik
    Skógarsel í Breiðholti kl. 18
    ÍR - KA/Þór

ÍR-ingar hafa unnið tvo leiki af fjórum og sitja í 6. sæti deildarinnar með fjögur stig. 

- - -

KA hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á Íslandsmótinu, Unbroken-deild kvenna, en er þó ekki í toppsætinu þar sem HK hefur nú þegar spilað tveimur leikjum meira og unnið þá alla. Nú er komið að því að heimsækja Húsvíkinga.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    PCC-höllin á Húsavík kl. 19:30
    Völsungur - KA 

Völsungur hefur spilað tvo útileiki gegn HK og tapað báðum, 3-0. KA hefur aftur á móti unnið Þrótt tvívegis, 3-0 í bæði skiptin.

FIMMTUDAGUR 9. OKTÓBER - fótbolti, handbolti

Þór/KA lýkur keppni á Íslandsmótinu, Bestu deildinni, þetta árið þegar liðið tekur á móti Fram í Boganum á fimmtudag. Bæði lið hafa tryggt sæti sitt í Bestu deildinni á næsta tímabili.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
    Boginn kl. 16:15
    Þór/KA - Fram

Fyrir lokaumferðina er Þór/KA í 7. sæti deildarinnar, efsta sæti neðri hlutans, með 27 stig úr 20 leikjum, en Fram er með 25 stig. Í viðureignum þessara liða fyrr á tímabilinu unnust báðir leikirnir á útivelli. Þór/KA vann 3-1 á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal, en Fram vann dramatískan 2-1 sigur með marki í viðbótartíma í Boganum í seinni umferðinni.

- - -

Þórsarar eiga verðugt verkefni fyrir höndum í 6. umferð Íslandsmótsins í handbolta, heimsókn í Kaplakrika þar sem þeir mæta FH á fimmtudag. 

  • OLÍS-deild karla í handknattleik
    Kaplakriki kl. 18:30
    FH - Þór 

FH-ingar eru þó ekki nema sæti ofar en Þórsarar. FH hefur unnið tvo af fyrstu fimm leikjum sínum og situr í 9. sætinu með fjögur stig. Þór er í 10. sætinu með þrjú stig, en Þórsarar unnu ÍR og gerðu jafntefli við Stjörnuna á heimavelli og bíða því eftir fyrsta stigi eða stigum á útivelli.

FÖSTUUDAGUR 10. OKTÓBER - handbolti, körfubolti

KA hefur unnið þrjá af fyrstu fimm leikjum sínum á Íslandsmótinu, auk þess að komast áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar. Liðið er í 4. sæti deildarinnar með sex stig, jafn mörg og ÍBV og Valur.

  • OLÍS-deild karla í handknattleik
    Lambhagahöllin í Úlfarsárdal kl. 19
    Fram - KA

KA bíður nú það erfiða verkefni að sækja Íslandsmeistarana heim í Úlfarsárdalinn. Frammarar tilkynntu í morgun um endurkomu Þorsteins Gauta Hjálmarssonar, sem gengin er til liðs við félagið að nýju eftir skamma dvöl hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Sandefjord.

Fram hefur þó ekki byrjað tímabilið af sama krafti og félagið endaði það síðasta. Liðið hefur unnið tvo leiki af fimm og situr í 8. sæti deildarinnar með fjögur stig.

- - -

Karlalið KA í blaki sækir Mosfellinga heim á föstudag. KA er í 3. sæti deildarinnar með sex stig, hefur unnið tvo leiki og tapað einum. Afturelding hefur spilað tvo leiki og er í 7. sætinu með þrjú stig.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    Íþróttamiðstöðin að Varmá í Mosfellsbæ kl. 19
    Afturelding - KA

- - -

Keppni í 1. deild karla í körfuknattleik hefst á föstudag. Þórsliðið er töluvert breytt frá síðasta tímabili, nýir þjálfarar og breytingar á leikmannahópnum. Nánar verður farið yfir þessar breytingar og væntingar félagsins síðar í vikunni, en Þórsarar taka á móti Sindra í Íþróttahöllinni á föstudagskvöld.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Sindri

Í dag var dregið í 32ja liða úrslit í bikarkeppni karla í körfuknattleik, VÍS-bikarnum. Þórsarar fá útileik gefn Fjölni. Leikirnir í 32ja liða úrslitunum fara fram 19. og 20. október.

- - -

Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð á mánudögum hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.