Fara í efni
Umræðan

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Ég skrifa þetta til að vekja athygli á alvarlegu máli sem nýlega uppgötvaðist: Í Brunnárgilinu fyrir sunnan og neðan Kjarnalund fær óhreinsað klóakskólp frá 66 herbergja hóteli að flæða óáreitt út í brekkuna og Brunnána.

Kjarnaskógur er að flestra mati sem til þekkja náttúruparadís sem afar margir nýta sér á ýmsa vegu allan ársins hring. Ég og mín fjölskylda vorum svo heppin að kynnast henni á undan flestum þar sem við ólumst upp með henni fyrir allmörgum áratugum á þeim tíma sem allt skipulag þar og uppbygging var að sigla af stað. Við lékum okkur á ýmsan máta, tíndum ber og fórum í könnunarleiðangra út og upp um allar koppagrundir enda ekki trén neitt mikið að flækjast fyrir þarna í árdaga. Svo unnum við þar við gróðursetningar þegar tognaði aðeins úr okkur. Okkur þykir vænt um þetta svæði.

Myndir: Ingimundur Róbertsson

Brunnáin okkar var líka mikið notuð, hægt að fara í sturtu undir fossinum, við stífluðum aðeins ofar, framan við smá hyl og æfðum sundtökin – með misgóðum árangri reyndar, sulluðum og sigldum ýmsum fleytum og svo framvegis, það vantaði ekkert á hugmyndaflugið.

Árin liðu, við flugum úr hreiðrinu eins og gengur, trén uxu og sum sáðu sér, þannig að kjarrið þéttist víða og þar sem lítil umferð varð eins og til til dæmis við neðanvert Brunnárgilið hefur orðið heldur ógreiðfært með árunum. Norðan árinnar hagar víða þannig til að vetrarbyljirnir hafa þvingað birkið í nánast lárétta stöðu til suðurs og krefst talsverðar lipurðar og þrjósku að brjótast þar í gegn, ýmist með því að skríða undir eða klofast yfir bolina.

Fyrir um það bil 6 árum fór að bera á heldur hvimleiðum gesti; við ákveðin veðurskilyrði t.d. í hlýrri vestangolu, berst niður brekkuna verulega andstyggilegur daunn. Þeirrar tegundar sem við köllum klóakfýlu. Ekki þurfti neitt mikið að brjóta heilann um orsökina, nokkur hundruð metrum ofar er 66 herbergja hótel, kennt við Kjarnalund. Fallegt nafn finnst mér. Fleira fallegt get ég samt ekki tengt við það.

Ábúandinn á Brunná ámálgaði það nokkrum sinnum við hótelrekendur að gera eitthvað í þessu, það hlyti að þurfa einhverjar lagfæringar á rotþrónni eða eitthvað. Svo sem ekki hans mál að bilanagreina, ætti að duga að láta vita að eitthvað væri að. Sá sem hann hitti fyrst kvaðst alveg kannast við þetta, þau fyndu stundum lyktina þegar þau væru í pottinum! Huggulegar stundir í pottinum þar þykir mér. Næst þegar hann fór að kvarta yfir ástandinu var talað um að sveitarfélagið hefði ætlað að leggja fráveitu en það hefði eitthvað klikkað. Þetta eru bara tvö sýnishorn af viðbrögðum, ekkert dró úr fýlunni.

Í fyrravor var haft samband við Heilbrigðiseftirlit í tölvupósti og var þá farið að skoða í kring um rotþróna og gerðar einhverjar tillögur um það. Núna er eitthvað verið að brasa upp við hótelið en sýnilega langt þangað til þær framkvæmdir geta farið að skila einhverjum árangri.

Hér er orðrétt sýnishorn af kvörtun til Heilbrigðiseftirlits fyrir ári síðan:

Laugardagur 19.08.2023 18:03

Efni: Óásættanleg lyktarmengun frá hóteli.

Enn eitt sumarið að líða sem ég hef ekki getað notið í garðinum hjá mér vegna klóaklyktar frá hótel Kjarnalundi.

Mér finnst ólíðandi að þeir geti komist upp með þetta ár eftir ár, mér er orðið nokkuð sama hvaða afsakanir þeir koma með, eftir stendur að ekkert breytist.

Ég hringdi í lögregluna um daginn og kom einn frá þeim til að staðfesta lyktina. Hann fann yfirgnæfandi fnykinn þegar hann var að renna í hlað, ÁÐUR en hann kom út úr bílnum. Fnykurinn er oftast í hitaskilum á kvöldin og sumar nætur er það svo slæmt að ég vakna við hann. Ég vil að þetta verði lagað og það strax.“

Tilvitnun lýkur.

Hverfum nú til nútímans. Að kvöldi 19. ágúst síðastliðins fórum við elsti bróðir minn í kvöldgöngu um okkar gömlu bernskuslóðir og byrjuðum á að ganga upp með ánni að norðanverðu og létum þétt kjarrið ekki aftra okkur þó hægt gengi. Skyndilega göngum við fram á skrýtinn svartan og fúlan læk á árbakkanum, sem ekki var þarna þegar við vorum lítil. Við kræktum framhjá og lukum okkar gönguferð, enda orðið áliðið. Morguninn eftir fór bróðir minn aftur og skoðaði svæðið betur og fann þá furðulegt og heldur viðbjóðslegt fyrirbæri. Í stuttu máli rennur þarna úr lélegu röri rétt neðan við gilbarminn óhreinsað klóakskólpið frá téðu 66 herbergja hóteli! Í augum flestra sem til þekkja hlýtur þetta að flokkast sem mjög alvarleg náttúruspjöll, skólpið rennur um 20 metra leið að Brunná. Það breiðir úr sér svo það þekur líklega um hundrað fermetra og hafa myndast pyttir. Síðan rennur óhroðinn ofan í ána.

Þarna var þá loks komin skýringin á ódauninum sem húsráðandi hefur mátt búa við allan þennan tíma og gert sitt besta til að koma á framfæri kvörtunum og ábendingum um, sem voru svo hundsaðar af hálfu hótelrekenda með óafsakanlegu ábyrgðarleysi og slóðaskap.

Heilbrigðiseftirlitið hefði einnig mátt bregðast betur við eftir að kvartað var þangað en rétt er að taka fram að við setjum ekki út á viðbrögð þeirra nú.

Hér verður að taka fram að engan (utan hótelsins a.m.k.) óraði fyrir neinu þessu líku og grunur hafði fram að þessu fyrst og fremst beinst að rotþrónni og umhverfi hennar og við hana voru gerðar athugasemdir. Þarna í ótræðinu var þetta vel falið en nú er búið, með leyfi skógræktarinnar, að saga burtu talsvert af kjarrinu svo að aðgengið er mun skárra.

Það er hreinlega óhugnanlegt að fyrirtækinu hafi tekist að ganga svona gersamlega á svig við lög og reglur þetta lengi. Komið hefur í ljós að þarna rétt hjá er siturlögn sem var lögð 2007 og er greinilega orðin alónýt og hefur verið það í a.m.k. þessi 6 ár sem fýlan hefur fundist. Svona rekstur ætti alls ekki að hafa starfsleyfi eftir að upp kemst um óþverrann en í dag, 1.09, rennur enn úr rörinu.

Heilbrigðiseftirlitinu var ekki síður brugðið en okkur hinum en það eru víst í gildi reglur um andmælarétt og frest til að framkvæma úrbætur en einu úrbæturnar sem við sættum okkur við eru tafarlaus lokun á notkun þessa handónýta frárennsliskerfis og við vitum að það er til skoðunar í kerfinu.

Mér þykir sennilegt að slíkt framferði sem að ofan er lýst, kosti einhverskonar viðurlög, stjórnvaldsektir og hvað það nú allt heitir gagnvart hinu opinbera en hvað okkur varðar væri fróðlegt að vita hverjar bætur þættu sanngjarnar fyrir að vera öll þessi ár búin að velta niður brekkurnar viðbjóðslegu andrúmslofti sem spillir svo mjög lífsgæðum íbúa Brunnár. Þigg góð ráð og ábendingar.

Kannski Magnús Guðjónsson sem er í forsvari fyrir Kjarnalund ehf. eigi eftir að hafa samband til að semja um það?

Elín Kjartansdóttir ólst upp á Brunná

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00

Akureyrarbær gerir vel við barnafólk og tekjulágar fjölskyldur

Heimir Örn Árnason, Hlynur Jóhannsson og Hulda Elma Eysteinsdóttir skrifa
28. ágúst 2024 | kl. 14:38