Fara í efni
Umræðan

Til varnar Míu og Mómó

Óvænt ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar á Akureyri um algjört bann við frjálsri för eða „lausagöngu“ katta frá 1. janúar 2025 virðist hafa skipt samfélaginu í tvær andstæðar og tilfinningaþrungnar fylkingar. Harðsnúinn hópur Akureyringa hefur lýst þessum ferfættu bæjarbúum sem plágu sem nánast hefur útrýmt spörfuglunum, gert þarfir sínar í sandkassa barnanna og jafnvel brotist inn á heimili og unnið þar miklar skemmdir. Álíka harðsnúinn hópur hefur lýst yndinu og bæjarprýðinni sem felst í þessum fallegu, sjálfstæðu kattardýrum sem baða sig í sólinni á sumrin og tipla varlega í gegnum snjóskaflana á veturna.

Tilfinningahitinn sem einkennir þessa umræðu á sér helst hliðstæðu í umræðunni um svonefnda „Bíladaga“ sem eru eitur í beinum þeirra sem þola ekki hávaðann og mengunina og óttast um öryggi barna og katta en þeir eru jafnframt stórhátíð margra sem unna fallegum og hraðskreiðum bílum. Líkt og með frjálsa för katta er enginn vegur að bæði leyfa og banna Bíladaga og því hefur bæjarstjórnin árum saman leitað málamiðlana sem hvorki fullnægja ítrustu kröfum aðdáenda né andstæðinga hátíðarinnar.

Það er tilgangslaust að skrifa greinar til að snúa hörðum aðdáendum eða andstæðingum til annarrar skoðunar, hvort sem um er að ræða kattahald, bílahátíðir eða stærri mál á borð við aðild að Evrópusambandinu, heimildir til þungunarrofs eða virkjanir á hálendinu. Þótt það komi eflaust andstæðum fylkingum verulega á óvart er í flestum slíkum málum meirihluti fólks á báðum áttum eða jafnvel áhugalaus með öllu.

Ég veit ekki til þess að nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar á takmörkunum á kattahaldi og byggðaþróun en það er augljóst mál að bann við frjálsri för katta sendir skýr skilaboð um það hvers konar staður Akureyri er og hvers konar staður hún er ekki. Slíkt bann eykur eflaust lífgæði og búsetuánægju sumra en dregur jafnframt verulega úr lífsgæðum og búsetuánægju annarra.

Ég get því lítið sagt um málið sem byggðanörd sem legið hefur áratugum saman yfir orsökum búferlaflutninga. Ég get hins vegar farið nokkrum orðum um mína upplifun sem aðfluttur Akureyringur og kisukarl.

Þegar ég bjó í New York ríki fyrir átján árum var gulbröndótti högninn Kormákur Atli sambýlisköttur minn. Hann drap aldrei fugl svo ég vissi til en mýsnar sem réðu lögum og lofum í húsinu fyrir hans tíð hurfu eins og dögg fyrir sólu. Hans æðsti draumur var að klófesta einhvern af íkornunum sem héldu til í hæstu trjánum í bakgarðinum og stríddu honum endalaust. Hann klifraði upp í hvern trjátoppinn á fætur öðrum, aðeins til að sjá á eftir stríðnispúkunum stökkva á síðustu stundu yfir í næsta tré.

Þegar staða á mínu sviði var auglýst við Háskólann á Akureyri var freistandi að drífa sig heim til Íslands þótt við þekktum ekki nokkurn kjaft fyrir norðan. Það var heilmikið umstang að selja húsið við Fletcher Road, rífa krakkana upp, segja upp vinnunni, fylla gáminn af dóti og koma öllu saman yfir hafið. Eitt stærsta hagnýta viðfangsefnið var samt að koma Kormáki Atla til landsins. Ferlið var flókið og dýrt og við höfðum áhyggjur af velferð hans í einangrun sem þá var í Hrísey.

Elsku kallinn fékk samt aldrei að sjá norðlensku fjöllin. Einn fallegan vordag eftir harðan vetur lá hann úti í garði og baðaði sig í vorsólinni þegar aldraður nágranni bakkaði bílnum sínum í ógáti yfir garðshornið hjá okkur. Hann hvílir þess vegna undir kirsuberjatrénu bak við húsið.

Á Akureyri varð Raggi Bjarna sambýlisköttur okkar um langt skeið, gulbröndóttur eins og Kormákur. Á yngri árum var hann mikill ævintýraköttur og við fengum símtöl frá fólki í flestum hverfum Akureyrar sem höfðu áhyggjur af því að hann væri rammvilltur þar sem hann mjálmaði ámátlega við útidyrnar. Hann þekkti hins vegar bæinn eins og loppuna á sér en fannst forvitnilegt að sjá hvernig samborgararnir byggju og komast að því hvort þar væri eitthvað gott í matinn. Honum líkaði hins vegar ekki sérlega vel við litlu börnin sem bættust á heimilið eitt af öðru og vingaðist þess vegna við nágrannakonuna sem gaf honum harðfisk og leyfði honum að gista þegar hann vildi. Ég sé honum enn þann dag bregða fyrir í garði nágrannakonunar, háöldruðum og akfeitum af mun betra atlæti.

Sambýliskisur okkar í dag eru þær Mía og Mómó. Mía er grábröndótt, öskuhaugaköttur að upplagi, stundum stygg og tortryggin en oftar gæf og kelin. Hún er líka fyrsta kisan mín sem er jafn afkastamikill fugladrápari og bankastjóri á rjúpnaveiðum. Það lágu allmargir þrestir í valnum áður en hún fékk rauðan trúðakraga sem hefur hingað til framfylgt algjöru veiðibanni. Spörfuglarnir sem hreinsa rifsberjarunnana á haustin komast stundum í krappann en sleppa nánast alltaf með skrekkinn.

Mómó er hins vegar þrílit millistéttarkisa sem aldrei hefur orðið virkilega svöng um ævina. Hún kemur mjálmandi inn í svefnherbergi á morgnana og bókstaflega hoppar um af eftirvæntingu að komast út í garð eftir nóttina. Yfir morgunkaffinu heyrir mannfólkið smellina í kattalúgunni þegar hún kemur inn í morgunmat, æpandi eftir hlýju klappi og afsökunarbeiðni yfir veðráttunni ef rignir eða snjóar. Hennar æðsti draumur er að læsa klónum í hænur nágrannans, en í draumi hvers kattar er eflaust fall hans falið.

Það kemur eiginlega ekki til álita að loka þær Míu og Mómó inni til æviloka. Þær hafa alist upp við algjört ferðafrelsi og það væri ómannúlegt að láta þær sitja vesælar úti í glugga og horfa út í garðinn. Þær munu heldur aldrei verða kisur sem hægt er að fara með í gönguferð í bandi eins og púðluhunda. Það væri mannúðlegra að svæfa þær svefninum langa.

Það flytur enginn frá Akureyri vegna þess að frjáls för katta verði bönnuð. Ég hefði persónulega aldrei flutt hingað upp á þau býti en það hefði þá bara einhver kisulaus félagsfræðingur fengið stöðuna. Kannski værum við enn í Albany, eða kannski hefði komið upp staða fyrir sunnan, hver veit.

Ég er hins vegar eins og margir í þeirri stöðu að vera að fara að vinna að mestu fyrir sunnan. Það er alveg hægt þótt það sé langt í vinnuna og fjarvistir frá fjölskyldu og kisum verða talsverðar. Það er vel þess virði fyrir frábært samfélag og gott líf í faðmi norðlenskra fjalla. Það veit auðvitað enginn hvað framtíðin ber í skauti sér og frjálsar kisur eru kannski ekki stærsta óvissan í því sambandi.

En í mínum huga er það óneitanlega dapurlegur bær þar sem maður mætir ekki kisum að sniglast um á förnum vegi og heimiliskisur framtíðarnnar ættu að leika einhvers konar postulínsketti á píanóinu.

Þóroddur Bjarnason er íbúi á neðri brekkunni.

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03