Fara í efni
Umræðan

Þórsarar hólpnir eftir sigur – MYNDIR

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór sigraði Dalvík/Reyni 2:0 í Lengjudeildinni í knattspyrnu í dag, eins og Akureyri.net greindi frá síðdegis. Þórsarar, sem voru í fallhættu, eru þar með hólpnir og verða í deildinni næsta sumar.

Leikurinn var sögulegur að því leyti að Aron Einar Gunnarsson skoraði í fyrsta sinn fyrir meistaraflokk Þórs. Hann gerði fyrra mark liðsins eftir tæplega hálftíma leik úr vítaspyrnu og framherjinn Rafael Victor, sem kom af varamannabekknum þegar 20 mínútur voru eftir, gulltryggði sigurinn Þórsara með marki undir lokin eftir sendingu Ingimars Arnars Kristjánssonar.

Lið Dalvíkur/Reynis var þegar fallið úr deildinni en gerði Þórsurum sannarlega erfitt fyrir í dag. Gestirnir fengu nokkur afbragðs færi til að skora en tókst ekki; Aron Birkir markvörður Þórs var í banastuði og einu sinni skaut einn gestanna í stöng.

SKÓR BJARKA Á HILLUNA?
Sveinn Elías Jónsson formaður knattspyrnudeildar Þórs afhenti Bjarka Þór Viðarssyni blómvönd fyrir leikinn. Bjarki, sem er aðeins 27 ára, mun að öllum líkindum leggja skóna á hilluna eftir tímabilið vegna meiðsla sem hafa plagað hann. Bjarki lék allan tímann í dag, í þessum síðasta heimaleik tímabilsins.


_ _ _

SÍÐASTI HEIMALEIKURINN
Byrjunarlið Þórs í síðasta heimaleik sumarsins. Aftari röð frá vinstri: Aron Birkir Stefánsson, Alexander Már Þorláksson, Árni Elvar Árnason, Ingimar Arnar Kristjánsson, Ragnar Óli Ragnarsson og Ýmir Már Geirsson. Fremri röð frá vinstri: Kristófer Kristjánsson, Birkir Heimisson, Bjarki Þór Viðarsson, Aron Kristófer Lárusson og Aron Einar Gunnarsson.


_ _ _

BIRKIR MEIDDIST
Ekki voru nema rúmar 10 mínútur búnar af leiknum þegar Birkir Heimisson meiddist á fæti. Brotið var á honum, Birkir lá eftir en reyndi að harka af sér; kom inn á aftur eftir að Stefán Ingi Jóhannsson sjúkraþjálfari Þórs skoðaði hann, en fór af velli nokkrum mínútum síðar. Hann þarf í myndatöku til að komast að því hvað gerðist og yfirgaf völlinn á hækjum.

Hinn ungi og bráðefnilegi drengjalandsliðsmaður, Einar Freyr Halldórsson, leysti Birki af hólmi og stóð sig afar vel. Einar Freyr, sem á þriðju myndinni, er aðeins 15 ára – verður ekki 16 ára fyrr en eftir viku.


_ _ _

ARON BIRKIR FRÁBÆR
Aron Birkir Stefánsson markvörður Þórs sýndi í leiknum hvers hann er megnugur. Hann hefur stundum leikið undir pari í sumar en var frábær í dag. 

Aron Birkir þurfti fyrsta að taka á honum stóra sínum á 20. mínútu. Eftir að Þórsarar áttu aukaspyrnu við vítateiginn hinum megin náðu gestirnir skyndisókn, Amin Guerrero Touiki komst á auðan sjó með Kristófer Kristjánsson á hælunum, var í dauðafæri þegar hann skaut en Aron sá við honum með glæsilegri markvörslu.

Þriðja myndin var svo tekin á 73. mín. þegar Áki Sölvason fékk einnig dauðafæri en Aron Birkir var eldsnöggur út á móti honum og varði meistaralega.


_ _ _

SÖGULEGT MARK
Aron Einar Gunnarsson gerði fyrra mark Þórs í dag með marki úr vítaspyrnu á 27. mínútu. Erlendur Eiríksson dómari taldi varnarmann Dalvíkur/Reynis hafa brotið á Ingimari Arnari Kristjánssyni – sem sumum þótti afar harður dómur eða jafnvel beinlínis rangur – og skoraði af öryggi. Nánar hér og spjall við Aron hér


_ _ _

SKOT Í STÖNG
Amin Guerrero Touiki, sá hinn sami og Aron Birkir varði svo vel frá á 20. mínútu, var aftur aðgangsharður í vítateig Þórs á 33. mín. Lúmskt skot hans úr vítateignum small í vinstri stöng Þórsmarksins og þaðan skaust boltinn fyrir markið og varnarmaðurinn náðu að bægja hættunni frá. Þarna sluppu Þórsarar með skrekkinn.


_ _ _

FANNAR DAÐI MÆTTUR
Aron Einar Gunnarsson fór af velli þegar um 15 mínútur voru eftir og systursonur hans, Fannar Daði Malmquist Gíslason, kom inn á í staðinn. Hann hefur verið frá vegna meiðsla í töluverðan tíma og Þórsarar saknað hans, því Fannar lék mjög vel áður en hann meiddist. Hann hélt uppi merki frænda síns þegar þeir höfðu vistaskipti og lét vel í sér heyra!


_ _ _

SIGURMARKIÐ
Framherjinn Rafael Victor gerði seinna mark Þórs í dag þegar lítið var eftir. Hann hafði misst af þremur af síðustu fjórum leikjum Þórs, var á meðal varamanna í dag en kom inn á þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Ingimar Arnar, lengst til hægri á myndinni að neðan, sendi á Victor sem skaut frá vítateigslínu eins og sjá má, og markvörður Dalvíkinga réð ekki við skotið, enda fór boltinn í varnarmann og breytti um stefnu. Victor hefur þar með gert níu mörk í 18 leikjum í deildinni í sumar og er markahæstur Þórsara.


_ _ _

DRAGAN SÁ RAUTT
Dragan Stojanovic, þjálfari Dalvíkinga og fyrrum Þórsari, var rekinn af varamannabekknum á síðustu andartökum leiksins. Hann var áminntur með gulu spjaldi fyrr í leiknum fyrir mótmæli og Erlendur Eiríksson dómari veitti Dragan sömu refsingu strax eftir annað mark Þórs, og varð því að draga rauða spjaldið upp úr vasa sínum. Dragan var þó fljótur að taka gleði sína á ný enda gat hann verið stoltur af frammistöðu sinna manna. Hann gera þeir að gamni sínu eftir að flautað var til leiksloka, Dragan og Aron Birkir markvörður Þórs.


_ _ _

ÞÓRSURUM LÉTT
Þungu fargi var létt af Þórsurum þegar flautað var til leiksloka í dag. Tekist hafði að reka falldrauginn á brott og Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari gat því leyft sér að brosa eins og aðrir!

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
15. október 2024 | kl. 11:30

Varði ekki viðsnúninginn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. október 2024 | kl. 11:00

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50