Fara í efni
Umræðan

Þór vann Fjölni og tók forystu í einvíginu

Stór hópur Þórsara var á áhorfendapöllunum í kvöld og fagnaði vel og lengi með leikmönnum liðsins eftir sigurinn á Fjölni. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu Fjölni 29:27 á útivelli í kvöld í úrslitum umspils um sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta næsta vetur.

Þetta var þriðja viðureign liðanna og Þórsarar hafa tekið forystu; staðan er 2:1 og sigri þeir Fjölnismenn í Höllinni á Akureyri á mánudagskvöldið er sæti í Olísdeildinni tryggt. Ekki skyldi þó vanmeta lið Fjölnis og eins gott að leikmenn Þórs og stuðningsmenn mæti grimmir til næsta leiks.

Liðin buðu upp á hörkuleik í kvöld í Fjölnishöllinni, sal sem er hluti af Egilshöll í Grafarvogi. Töluverðar sveiflur voru í leiknum; heimamenn byrjuðu betur en Þórsarar skiptu um gír þegar leið á fyrri hálfleikinn og höfðu þriggja marka forystu að honum loknum, 15:12.

Aron Hólm Kristjánsson var atkvæðamikill í sóknarleik Þórsliðsins. Gerði alls átta mörk og tvö þau síðustu í leiknum. Hér skorar hann næst síðasta markið úr víti. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar héldu sínu striki í upphafi seinni hálfleiks, en reyndar aðeins í stutta stund. Þeir gerðu fyrsta markið en þá hrukku Fjölnismenn í gang og gerðu fimm mörk í röð; komust í 17:16 og skömmu síðar í 19:17.

Þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður höfðu heimamenn þriggja marka forskot, 24:21. Halldór Þórsþjálfari greip þá til þess ráðs að taka leikhlé og það svínvirkaði. Þórsarar gerðu næstu fjögur mörk, komust yfir á ný og léku vel lengstum það sem eftir lifði leiks. En spennan hélst allt til loka. Aron Hólm kom Þór í 28:27 með marki úr vítakasti og gerði síðasta markið skömmu síðar eftir hraðaupphlaup.

Fögnuðu saman! Mikill fjöldi Þórsara var á áhorfendapöllunum í Fjölnishöllinni og studdi dyggilega við bakið á sínum mönnum. Leikmenn fögnuðu vel með áhorfendum og Halldór Kristinn Harðarson, forsöngvari að vanda, barði hraustlega í trommu eins stuðningsmannsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 8, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 6, Sveinn Aron Sveinsson 3, Þormar Sigurðsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 1, Garðar Már Jónsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 15.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30