Sumarið sem kom á óvart

Í ágúst 2024 fjallaði Ríkisútvarpið um lítið framboð sumarafþreyingar fyrir börn á Akureyri, meðan foreldrar sinna vinnu og skólar eru í fríi. Formaður bæjarráðs, Heimir Örn Árnason, sagðist þá fyrst hafa heyrt af umræðunni það sumar og að málið yrði skoðað vel fyrir næsta sumar.
Síðan þá er liðin ein meðgöngulengd og skyndilega styttist í sumarið á ný. Við nýlega eftirgrennslan Ríkisútvarpsins á stöðu mála virtist forseti bæjarstjórnar jafn hissa og áður yfir því að ákall væri eftir sumarfrístundum fyrir börn bæjarins. Nú telji hann að núverandi fyrirkomulag hafi gengið vel síðustu tuttugu ár eða svo, en það felst í því að íþróttafélög og önnur félagasamtök bjóði upp á mislöng og misdýr sumarnámskeið, stundum hálfan daginn, stundum skemur.
Aðspurður svarar hann að kannski þurfi að skoða hvort við viljum fara þá leið að opna sumarfrístund fyrir yngstu börnin – hvort að þjóðfélagið sé orðið þannig breytt?
Hvort að þjóðfélagið sé orðið hvernig breytt?
Þannig að ekki hafi allar fjölskyldur efni á því að vera með fyrirvinnu og annað foreldrið sé heima?
Þannig að ekki séu allar fjölskyldur með afa og ömmu í bakgarðinum með heilsu og sem eru tilbúin til að hlaupa undir bagga?
Þannig að enginn kennari sé í nánustu fjölskyldu sem á rétt á nánast jafn löngu sumarleyfi og börnin?
Þannig að ekki séu til einstæðir foreldrar í vinnu sem krefst viðveru og geta ekki skutlað börnum á milli staða yfir daginn.
Þannig að ekki séu fjölskyldur sem þurfi á andrými og stuðningi að halda vegna veikinda eða annarra aðstæðna?
Getur verið að samfélagið okkar sé fyrir löngu orðið þannig breytt að það sé þörf á þjónustu við grunnskólabörn hluta sumars? Getur verið að önnur bæjarfélög en Akureyrarbær séu búin að koma auga á það?
Formaður bæjarráðs er hér með hvattur til að nýta tímann vel fram að næsta sumri og fá þörfina kannaða fyrir alvöru. Rétt væri að kanna sérstaklega hvernig skortur á sumarfrístundum í bæjarfélaginu kemur við misjafna hópa, til að mynda fjölskyldur með langveik börn, fatlanir, tekjulægri fjölskyldur, einstæða foreldra og aðflutta án stuðningsnets.
Að vera ýtin fyrir barnið sitt – og önnur
Börn með sykursýki 1 þurfa aðstoð við blóðsykurstjórnun allan daginn, alla daga. Í hvert skipti sem þau borða þarf að gefa þeim insúlín fyrir kolvetnunum sem þau innbyrða, reglulega þarf að stinga í fingur og athuga blóðsykur og bregðast þarf við þegar blóðsykur verður of hár eða of lágur. Lífshættulegt getur verið að fara í blóðsykursfall ef ekkert er að gert.
Að því gefnu að ofantöldu sé sinnt geta börn með sykursýki 1 gert það sama og önnur börn, þau stunda íþróttir og tómstundir og taka að fullu þátt í samfélaginu. Í skólum og frístundum fá þau stuðning frá starfsfólki sem kann á dæluna, að telja kolvetni og bregðast við í neyð. Þetta starfsfólk er dýrmætt og grundvöllur þess að sonur okkar og fleiri börn geti lifað sínu besta barnalífi.
Það tók merkilega langan tíma að fá svör frá Akureyrarbæ um hvaða rétt sonur okkar ætti á aðstoð að sumarlagi og yfirlit yfir sumarfrístundir birtust seint á vef Akureyrarbæjar. Flækjustigið er hærra þegar barn þarf stuðning, klukkan tifar og spurning hvort við náum að taka sumarfrí saman sem fjölskylda, eða hvort við þurfum að skipta okkur upp? Er hægt að semja við ömmu þessa vikuna og afa hina? Ef við fengjum vilyrði fyrir stuðningi, er þá einhver tilbúinn að fylgja honum á tímum sem hentar, sem þekkir sjúkdóminn og hann og við treystum?
Í fréttum RÚV kom fram að nú þegar tvær vikur væru fram að skólalokum hefðu engin svör borist um hvort að sonur okkar gæti nýtt sér sumarfrístundir. Þá voru liðnar 8 vikur frá því að fyrst var óskað eftir leiðsögn og aðstoð við að koma því í kring. Eftir nokkra tölvupósta, svolitla ýtni og eftirgrennslan fjölmiðla virðist niðurstaðan verða jákvæð; hann fái þá þjónustu sem hann á rétt á og að auki er kjarnastarfsmaður hans innan skólans tilbúinn til verksins. Það er mikill léttir, en var þessi leið óþarflega löng og flókin? Hefði ferlið mátt vera einfaldara? Hafa allir foreldrar orku í ýtnina? Geta öll börn notið sumarfrístunda á Akureyri?
Kristín Helga Schiöth er móðir tveggja grunnskólabarna á Akureyri


Fundur með eldri borgurum á Akureyri

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

75 ár af evrópskri samheldni og samvinnu
