Fara í efni
Umræðan

Sköpum heilbrigðan húsnæðismarkað

Við þekkjum það líklega flest að alvarleg staða hefur verið á íslenskum húsnæðismarkaði. Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, bera mikla ábyrgð þegar kemur að þeirri stöðu. Skort hefur samstöðu, metnað og sameiginlega framtíðarsýn hins opinbera til að bregðast við vandanum af krafti og festu. Þá ekki síst með því að styðja við tekjulága og auka framboð félagslegs húsnæðis.

Það voru því í mínum huga stórtíðindi þegar ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) náðu saman slíkri sýn í sumar í því sem kallast „Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum“. Í þessum samningi kemur fram samstaða um að nauðsynlegt sé að stjórnvöld tryggi uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf, þar á meðal fyrir tekju- og eignarlága.

Helstu samningsmarkmið rammasamningsins eru:

  • Uppbygging í samræmi við þörf
  • Framboð íbúða á viðráðanlegu verði
  • Húsnæðisáætlanir haldi utan um og fylgi eftir samningsmarkmiðum
  • Einn ferill í húsnæðisuppbyggingu.

Það samningsmarkmið sem snýr að framboði íbúða á viðráðanlegu verði er þríþætt:

  • Lögð sérstök áhersla á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði og að hlutfall þeirra verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða.
  • Félagsleg húsnæðisúrræði verði að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði
  • Ráðist verði í sérstakt átak til að eyða biðlistum eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk.

Reykjavíkurborg var fyrst sveitarfélaga til að skrifa undir tímamótasamkomulag ríkis og borgar um húsnæðisuppbyggingu á grundvelli þessa rammasamnings. Hjá Akureyrarbæ er hins vegar enn verið að vinna í húsnæðisáætlun fyrir árið 2023, þrátt fyrir að árið sé nú þegar hafið. Þetta er stórmál og vægast sagt sérstakt að ekki hafi verið lögð áhersla á að ljúka við gerð húsnæðisáætlunar fyrir gerð fjárhagsáætlunar ársins. Það gæti því reynst Akureyrarbæ snúið að fylgja eftir markmiðum samningsins fyrir árið 2023, en þó alls ekki ógerlegt, sé sannarlega vilji til þess.

Vegna þessarar stöðu ákvað ég að gera rammasamning ríkis og sveitarfélaga að umfjöllunarefni á bæjarstjórnarfundi í gær. Sem betur fer virtust bæjarfulltrúar almennt vera sammála um mikilvægi þessa máls og var svo hljóðandi tillaga, sem ég bar upp með stuðningi bæjarfulltrúa Framsóknar og VG, samþykkt samhljóða: „Bæjarstjórn Akureyrarbæjar er sammála þeim meginmarkmiðum sem sett eru fram í rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum. Bæjarstjórn leggur áherslu á að flýta eins og kostur er endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og ganga í kjölfarið til viðræðna við ríkið og HMS um gerð samkomulags sem byggir á þeim markmiðum.“

Fyrir einstaklega áhugasama má sjá umræddan rammasamning hér: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/IRN/Frettatengd-skjol/Rammasamningur%20IRN%20Samband%20HMS%20-%20undirritað.pdf

Hilda Jana Gísladóttir er oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15