Fara í efni
Umræðan

Skipulagsmál á Akureyri, bútasaumur til skamms tíma eða framtíðarsýn?

Draumur okkar Oddeyringa er að hverfið okkar verði endurnýjað og byggt upp eins og gerðist í Innbænum. Árið 1998 var samþykkt deiliskipulag fyrir syðri hluta Oddeyrar, þ.e. sunnan Eiðsvallagötu. Ekkert deiliskipulag var til fyrir svæðin þar fyrir norðan en vonir stóðu til að í það yrði farið. Það gerist ekki og skipulagið fyrir suðurhlutann var ekki gott og ýtti frekar fyrir að rífa hús og byggja annað í staðinn.

Í framhaldi af því voru öll B húsin rifin en engin uppbygging kom. Það má því með góðri samvisku halda því fram að þetta deiliskipulag gerði ekkert fyrir Oddeyrina, síður en svo.

Nú liggur fyrir nýtt skipulag fyrir Oddeyri en hvað með framkvæmdir og nánari skilgreiningar? Kannski eru bæjaryfirvöld eitthvað farin að hugsa en fátt eitt mun gerast á þessu kjörtímabili hvað varðar framkvæmdir.

Það sem ég vil rýna í er eftirfylgnin og uppbyggingin sem þarf að fylgja svona vinnu. Það er ekki nóg að samþykkja rammadeiliskipulag, það þarf að teikna hús á lóðir og setja inn ný svæði eins og t.d. svæði austan Hjalteyrargötu sem bíður skipulagsyfirvalda.

Ljósmynd: Jón Ingi Cæsarsson

Nokkur grundvallaratriði sem þarf að leggja af stað með strax og það þarf ekki formlegt deiliskipulag til þess að hefjast handa á Oddeyri.

  • Fara í uppbyggingu gangstétta og gatna og byrja á svæðum næst Strandgötu (vandað yfirborðsefni og hellulagnir). Innbærinn er frábær fyrirmynd.
  • Gömlu göturnar frá Glerárgötu og til og með Hríseyjargötu þurfa nýtt yfirborðsefni í götur og gangstéttar.
  • Skipta út öllum ljósastaurum á svæðinu og koma upp fallegri og góðri lýsingu, í dag búum við við kolryðgaða og afgamla staura á flestum svæðum.
  • Glerárgötuna verður að taka niður frá Grænugötu að Kaupvangsstræti og jafnframt því huga að reitum vestan götunnar (Sjallareitur - Hofsbótarreitur). Þá er ég ekki að tala um stokk.
  • Átak í úthlutun dauðra lóða í götum. Ætti jafnvel að selja mjög ódýrt með skilyrðum um hraða uppbyggingu (Lundargata - Norðurgata í forgangi).
  • Horfa til útfærslu á norðurhlutanum meðan unnið er að framkvæmdum á suðursvæði (sunnan Eiðsvallagötu).
  • Veita styrki til lagfæringa og fegrunar húsa sem eru verðmæt fyrir götumyndir.
  • Lóðaátak og hreinsun er mjög brýnt að gera í upphafi, víða er ástandið ömurlegt.
  • Setja reiti í samkeppni, svæði austan Hjalteyrargötu og hugleiða framtíðarskipulag Furuvalla - Tryggvabrautar að Glerá. (Endurnýjun Tryggvabrautar og breyttrar húsanotkunar.) Tryggvabrautarskipulag er í vinnslu og lofar góðu.

Framíðarskipan á Oddeyri verður að hafa þann tilgang að efla og auka íbúðarbyggð og byggja upp fjölskyldvænt og aðlaðandi hverfi þar sem fólk vill setjast að með börnin sín til framtíðar.

Það sem hverfið þarf ekki er ferðamannaíbúðir í stórum stíl eða frekari iðnað.

Svæðin neðst á Tanganum bíða til framtíðar en auðvitað verður starfsemi þar ekki óbreytt til langrar framtíðar. Það er langtímaverkefni að fara í það verk og sannarlega er það áhyggjuefni að núverandi skipulagsyfirvöld eru ekki þar.

Þó segir í rammaskipulagi fyrir Oddeyri frá 2016.

1.3 MARKMIÐ Sett voru markmið í upphafi skipulagsvinnunnar sem hafa stýrt stefnumörkuninni.

Markmiðin eru:

  • að þétta byggð og fjölga íbúum
  • bæta ásýnd og umhverfi svæðisins
  • stuðla að bættum samgöngum fyrir gangandi og hjólandi
  • efla tengingar við aðliggjandi hverfi - benda á sérstakar götumyndir og hús sem vert væri að varðveita
  • sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi

Umræða um íþróttavöllin er að hefjast vonum seinna. Hugmyndavinna var í góðum gangi 2009-10 en lognaðist útaf eins og ýmislegt hjá meirihlutanum 2010-14.

Íþróttavallarsvæðið er í nánu samhengi við Oddeyri og Hólabraut - Laxagötu og þetta þarf að skoða heildstætt og forðast bútasaum sem er allt of algengt að sjá hér í bæ. Skipulagsmál þarf að rýna til lengri tíma, þau eru langhlaup en ekki spretthlaup um einstaka þéttingareiti og lóðabúta.

Í lokin er rétt að minnast aðeins á framtíðina. Hvað ætla bæjaryfirvöld sér til lengri framtíðar? Hvert á að beina framtíðaruppbyggingu, þá er ég að tala um til næstu 50-100 ára? Sá tími kemur og væri skynsamlegt að horfa inn í þá framtíð og móta stefnu. Byggingaland innnan núverandi bæjarmarka er langt komið og þarf að huga að framhaldi fyrr en seinna. En þess sjást engin merki enn sem komið er.

Jón Ingi Cæsarsson er Eyrarpúki

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15