Fara í efni
Umræðan

Skiptar skoðanir eðlilegar í gróskumiklu samfélagi

Nýverið voru lagðar fyrir bæjarráð Akureyrarbæjar niðurstöður þjónustukönnunar sem Gallup gerði undir lok ársins 2023. Könnunin leiðir í ljós að fremur litlar breytingar hafa orðið á viðhorfi fólks til hinna ýmsu þjónustuþátta Akureyrarbæjar frá árinu á undan og ef eitthvað er þá mælist aukin ánægja.

Heilt yfir er ég nokkuð sátt við niðurstöðurnar en legg ofuráherslu á að þeir málaflokkar þar sem óánægja mælist hvað mest verði teknir til gaumgæfilegrar skoðunar. Til þess eru þjónustukannanir að starfsfólk sveitarfélagsins og pólitískir fulltrúar sjái hvar þarf að gera betur. Við þurfum alltaf að vera tilbúin að hlusta á raddir bæjarbúa.

Það er gott að búa á Akureyri

Á Akureyri mælist mest ánægja með bæinn sjálfan til búsetu, sorphirðumál, umhverfismál, aðstöðu til íþróttaiðkunar og þjónustu grunnskóla. 88% bæjarbúa eru ánægð eða mjög ánægð að búa á Akureyri og hefur það hlutfall haldist nokkuð stöðugt síðustu 16 árin.

Skipulagsmálin eru gjarnan þrætuepli íbúa stærstu sveitarfélaga landsins og kemur ekki á óvart að fólk hafi á þeim skiptar skoðanir: 36% lýsa yfir óánægju, 31% eru ánægð og 34% taka ekki afstöðu. Óánægðum hefur þó fækkað um tæp 10% á síðustu tveimur árum á undan sem gefur vísbendingu um að við séum á réttri leið.

Aðrir þjónustuþættir þar sem óánægja mælist umtalsverð eru þjónusta við fatlað fólk (15%), þjónusta við barnafjölskyldur (19%) og við eldri borgara (26%).

Rekstur hjúkrunarheimila er á hendi ríkisins

Þótt ánægja með þjónustu við fatlaða sé aðeins um 50% í Akureyrarbæ þá er hún þó ívið meiri en í mörgum öðrum stórum sveitarfélögum. Um 35% hafa ekki skoðun á málaflokknum en 15% láta í ljós óánægju. Svipaða sögu má segja um afstöðu fólks til þjónustu við barnafjölskyldur. Þessir þættir þarfnast nánari skoðunar af hálfu starfsfólks og kjörinna fulltrúa.

Umtalsverð óánægja með þjónustu við eldri borgara stingur í augun og veldur mér bæði áhyggjum og heilabrotum. Um 48% eru annaðhvort frekar eða mjög ánægð, 26% taka ekki afstöðu en 26% segjast vera frekar eða mjög óánægð. Þessar niðurstöður eru alls ekki viðunandi. Hvað gæti skýrt þetta?

Fólkið sem hefur byggt upp bæinn okkar og er komið yfir sextugt, á að sjálfsögðu allt gott skilið og Akureyrarbær kappkostar að koma til móts við þennan hóp með fjölbreyttri og góðri þjónustu.

Ekki hefur borið á öðru en að við höfum staðið okkur vel hvað varðar félagsstarf eldri borgara, heimaþjónustu, heimsendan mat, samskipti við Félag eldri borgara og annað sem bærinn sinnir á þessu sviði.

Mér segir svo hugur að neikvæð umræða um ásigkomulag húsnæðis Hlíðar hafi áhrif á þessa niðurstöðu og vil að það komi skýrt fram að rekstur hjúkrunarheimilanna er ekki lengur á hendi Akureyrarbæjar. Reksturinn er lögbundið hlutverk ríkisins sem tók hann aftur yfir vorið 2021 og fól einkaaðila. Í þessu samhengi er líka rétt að komi fram að unnið er að viðgerðum á húsnæði Hlíðar og hér horfir því allt til betri vegar.

Aukin ánægja með skipulagsmál frá því sem var

Það er eftirlæti margra að þrátta um breytingar á skipulagi og nýframkvæmdir. Raunar held ég að það sé bara fagnaðarefni og eðlilegt að fólk hafi skiptar skoðanir á umfangsmiklum fyrirhuguðum framkvæmdum í svo gróskumiklu samfélagi sem Akureyri er og hefur verið á seinni árum. Fólk á að láta skoðanir sínar í ljós í heilbrigðu lýðræðissamfélagi. Að hafa áhuga á skipulagsmálum sýnir líka að Akureyringum þykir vænt um bæinn sinn.

Nýja könnunin leiðir í ljós að um 36% bæjarbúa eru frekar eða mjög óánægð með skipulagsmálin í sveitarfélaginu og þótt það sé of hátt hlutfall þá er það nokkru minna en næstu tvö ár þar á undan. Og allt þokast þetta í rétta átt því mest mældist óánægja með skipulagsmál á Akureyri á árunum 2008-2010 eða allt að 54%.

Niðurstöður könnunarinnar eru aðgengilegar í frétt frá 4. mars á heimasíðu sveitarfélagsins, Akureyri.is.

Fögnum því sem vel er gert

Akureyrarbær leggur áherslu á að veita íbúum sveitarfélagsins góða þjónustu í hvívetna. Við viljum sífellt gera betur og mæta auknum kröfum í nútíma samfélagi. Rafrænar þjónustuleiðir hafa verið efldar og ég hvet bæjarbúa til að hafa samband við okkur í gegnum þjónustugáttina á Akureyri.is og íbúaappið með ábendingar um það sem betur má fara.

Verum óhrædd við að láta skoðanir okkar í ljós á málefnalegan hátt. Tökum virkan þátt í opinberri umræðu um bæinn sem er okkur svo kær. Verum óhrædd við breytingar og fögnum því sem vel er gert. Akureyri er gróskumikill bær sem á sér blómlega framtíð.

Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri - asthildur@akureyri.is

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30