Fara í efni
Umræðan

Rannsókn á skammdegisþunglyndi

Ertu ung/ur, svolítið löt/latur og borðar mikið af kolvetnum?

– Varúð, þú gætir orðið þunglynd/ur!

Dagarnir fara að styttast og næturnar lengjast, eins á hverju ári. Þó þú sért aðeins þreyttari á veturna finnst þér ef til vill eitthvað huggulegt við þessa árstíð og þegar allt kemur til alls þá veistu að sólin kemur fljótlega aftur. En hvað með fólk sem líður ekki svona? Fólk sem sefur skyndilega meira en venjulega en hvílist samt ekki. Fólk sem á í erfiðleikum með einbeitingu og athygli. Fólk sem sækir í kolvetnaríkan mat og sætindi og hefur tilhneigingu til að þyngjast vegna ofáts á til dæmis dýrindis ís.

Íslendingar ónæmari en aðrar Norðurlandaþjóðir

Læknar og vísindamenn myndu segja að þeir sem eru skyndilega í þessari stöðu eða jafnvel alvarlegri séu að upplifa ákveðna tegund þunglyndis sem kallast árstíðabundin lyndisröskun, dags daglega kallað skammdegisþunglyndi. Í flestum tilfellum byrjar árstíðabundin lyndisröskun síðla hausts og varir yfir veturinn en hverfur á vor- og sumarmánuðum. Þú hefur líklega heyrt af þessu nú þegar, en árstíðabundin lyndisröskun er nokkuð algengt umræðuefni í löndum á norðlægari slóðum, staðsett langt frá miðbaugnum. Veturnir eru langir og dimmir á Íslandi en það sem þú veist kannski ekki er að Íslendingar virðast vera ónæmari fyrir áhrifum þess. Á meðan tíðni árstíðabundinna lyndisraskana er allt að 10% á öðrum Norðurlöndum, þá virðast aðeins 3,8% Íslendinga upplifa hana, samkvæmt rannsóknarniðurstöðum á algengi þeirra hérlendis frá árinu 1993. Nú eru tæplega 30 ár síðan þær niðurstöðurnar birtust. Við erum því með tölur frá því ári sem Ingibjörg Stefánsdóttir flutti lagið: „Þá veistu svarið“ í Eurovision fyrir Íslands hönd og sýningar á Friends höfðu enn ekki hafist. Ég er alls ekki að segja að gamlar rannsóknir séu slæmar og að ekki sé hægt að treysta þeim, hins vegar getur endurtekning gamalla rannsókna styrkt fyrri niðurstöður og tryggt að þær endurspegli íslenskan veruleika í dag. Einmitt þessari skoðun deilir hópur rannsakenda við Háskólann á Akureyri og Háskóla Ísland en þau vilja skoða nákvæmlega hversu margir á Íslandi upplifa breytingar á líðan og hegðun eftir árstíðum. Í því skyni lét þjóðskrá rannsakendum í té lista með tengiliðaupplýsingum um 15 þúsund manns á mismunandi aldri, kyni og víðs vegar af landinu.

Ljósmynd: Pedro Gabriel Miziara/Unsplash

Tæplega 1000 manns þegar tekið þátt

Ert þú kannski ein/n af þeim heppnu á þessum lista og þegar hefur verið haft samband við þig? Þegar hringt hefur verið í fólk og það er tilbúið að taka þátt, fær það sendan í tölvupósti hlekk að stuttri netkönnun. Þar er spurt um svefn, félagslega hegðun, líðan, þyngd, matarlyst og orku á mismunandi tímum ársins. Þó tæplega þúsund manns hafi þegar tekið þátt eru rannsakendur bjartsýnir á að minnsta kosti 5 þúsund manns muni taka þátt í könnuninni á næstu tveimur árum, en það er þriðjungur af stóra 15 þúsund manna úrtakinu.

Á þessum tímapunkti gætirðu verið að velta fyrir þér, hvers vegna las ég hingað en veit enn ekki hvers vegna ég gæti orðið þunglynd/ur. Ég er ung/ur og elska kolvetni og var titillinn ekki bara svokölluð smellubeita eða „clickbait“? En við erum einmitt alveg að komast þangað. Rannsakendurnir ætla að taka rannsóknina skrefinu lengra og af þeim sem fylla út netkönnunina verður farið í það umfangsmikla verkefni, seinni hluta rannsóknarinnar, að hafa samband við 100 manns sem skora hátt á mælingum á árstíðabundinni lyndisröskun og 100 manns sem skora lágt. Í þeim hluta rannsóknarinnar verður svarað spurningum eins og: „Hvaða áhrif hefur andrúmsloftið í kringum mig á líðan?“ Hljómar kannski ótrúlegt en er satt en fyrri rannsóknarniðurstöður sýna fram á fylgni á milli mengunar og þunglyndis. Mögulegt er að mæla loftmengun með litlum mæli sem kallast loftgæðamælir og verður hverjum þátttakanda í 100 manna úrtakinu sendur slíkur mælir heim til að mæla loftgæðin. Mæling á gæðum andrúmslofts fer fram í viku og verða þátttakendur beðnir að fylla út rafræna dagbók með spurningum um líðan og svefn á sama tímabili. Að því loknu verða þeir beðnir um að mæta í rannsóknastofu Háskólans á Akureyri, í Reykjavík eða nálægri heimabyggð.

Ertu náttugla eða morgunhani?

Nú fer þetta að verða sérstaklega áhugavert því að á rannsóknarstofunni munu þátttakendur setja á sig tæki, sem kallast heilarafrit (í stuttu máli EEG), sem lítur út eins og sundhetta með marga fíngerða víra tengda við. En hvert er leyndarmálið á bak við þennan sársaukalausa Medúsulega hjálm? Það mælir rafboð heilans og þegar það er tengt við tölvu sýnir það heilabylgjur þátttakenda sem óreglulegar línur á línuriti. Þó rannsakendur geti ekki lesið hugsanir þátttakenda geta þeir mælt mun á heilabylgjum fólks sem verður fyrir verulegum áhrifum vetrarins í samanburði við þá sem ekki verða fyrir áhrifum hans. Fyrri niðurstöður rannsakendanna sýndu einmitt að líklega er munur til staðar. Hins vegar þarf að huga að fleiri þáttum eins og næringu, hreyfingu og náttúrulegu svefnmynstri líkamans sem kallast dægurgerð eða „chronotype“. En það er vísindalegt hugtak sem lýsir því hvort þú ert náttugla (kvöldtýpa), morgunhani (morguntýpa) eða hvort tveggja.

Byggt á niðurstöðum fyrri rannsókna sinna spá rannsakendur því að miklar sveiflur í lundarfari muni hafa fylgni við aukna loftmengun, yngri aldur, því að vera kvöldtýpa, finna fyrir leiða á sumrin, að sækja í kolvetna- og fituríkan mat, hreyfingarleysi og tilhneigingu til að velta sér of mikið upp úr hlutunum. Þetta er yfirgripsmikið, ekki satt? Rannsakendur vilja vanda til verks og munu því boða þátttakendur fjórum sinnum á einu ári til þátttöku, það er einu sinni á hverri árstíð. Ef ungar, líkamlega vanvirkar og kolvetnaelskandi næturuglur í þessari rannsókn eru í raun líklegri til að finna fyrir þunglyndi á veturna mun það koma í ljós þegar rannsakendur hafa lokið rannsókn sinni og birt niðurstöður.

Myndir þú vilja taka þátt en ekki hefur enn verið haft samband við þig? Núna eru fullorðnum sem ekki lentu í stóra 15 þúsund manna úrtakinu velkomið að taka þátt og fylla út stuttu netkönnunina með því að smella á eftirfarandi hlekk: https://forms.office.com/r/SZJWeskfA4

Nánari upplýsingar um rannsóknina má síðan finna á heimasíðu Háskólans á Akureyri:

https://www.unak.is/is/rannsoknir/rannsoknir-vid-ha/epic-sad-study

Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið: epicsad@unak.is

Lada Zelinski er doktorsnemi við Háskólann á Akureyri og MA í sálfræði og taugavísindum

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03