Fara í efni
Umræðan

Oddeyrin, Tanginn – óhreinu börnin hennar Evu?

Umræður um framtíðarskipulag á Tanganum hafa verið heitar og nú er ljóst að verktakinn sem vildi byggja háhýsi á Tanganum er hættur við og vill nú selja bænum eignir sínar á reitnum við Strandgötuna. Það er vel að mínu mati, þessar fyrirhugðu framkvæmdir voru illa ígrundaðar, úr takti við skipulag og í fullkominni andstöðu við bæjarbúa, sérstaklega íbúa á Oddeyri.

En hvað svo? Reynslan af Akureyrarbæ og skipulagsyfirvöldum er að þau skortir framtak og framtíðarsýn. Einhvernvegin er það þannig að ekkert frumkvæði kemur þaðan þegar rætt skal um Oddeyri. Það er ýmislegt í farvatninu hjá bæjaryfirvöldum, Miðbærinn, Holtahverfi, Kollugerðismóar og fleira en ekki bólar á neinni umræðu um Oddeyri eða Tangann.

Árið 2009 kom út skýrsla þar sem tekin var umræða um Oddeyri og henni var ætlað að taka frumkvæði að uppbyggingu á Eyrinni. Að þessari skýrslu komu margir hagsmunaaðilar og skipulagsnefnd leiddi. Skýrslan var tilbúin 2009 og er á vefnum í aðgengilegu formi – sjá hér.

En 2010 voru bæjarstjórnarkosningar og L listinn náði hreinum meirihluta. Pólitíkin sá enga ástæðu til að halda áfram umræðum um skipulag og framtíð Oddeyrar og skýrslan fékk pláss í hinum djúpu skúffum bæjaryfirvalda. Frumkvæðinu og vinnunni var ekki fram haldið.

Ef stjórnmálamenn á Akureyri hefðu ekki nema brot af því frumkvæði og ákafa sem við sjáum í mörgum bæjarfélögum þegar kemur að svona verkefnum þá væri staðan allt önnur en hún er í dag. Umræðan um Oddeyri er enn á byrjunarreit eins og hún var þegar reynt var að koma henni af stað fyrir meira en áratug.

Ég hvet bæjarstjórnarmenn og fulltrúa í skipulagsráði að taka upp formlega vinnu við að koma málum á Tanganum og Oddeyri í farveg. Það þarf að stofna starfshóp um málið og koma því af stað. Ef ekkert gerist þá er það áfellisdómur yfir bæjaryfirvöldum á Akureyri. Það ætti að vera þeim lærdómsríkt að sjá hvernig fór þegar reynt var að útvista verkefninu til verktaka.

Nú eiga bæjaryfirvöld á Akureyri leik.

Jón Ingi Cæsarsson er íbúi á Oddeyri og fyrrverandi formaður Skipulagsnefndar Akureyrar.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45