Fara í efni
Umræðan

Ný rannsóknastofa gegnir lykilhlutverki

Hákon Hákonarson, stofnandi Arctic Therapeutics (AT), Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður DriftEA og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, og Ívar Hákonarson framkvæmdastjóri AT, þegar hin nýja rannsóknastofa AT var kynnt í Messanum hjá Drift. Mynd: Sindri Swan

Erfða- og líf­tæknifyr­ir­tækið Arctic Therapeutics hefur formlega opnað nýja rannsóknastofu á Akureyri sem uppfyllir ítrustu kröfur klínískra rannsókna. Rannsóknastofan er, eftir því sem best er vitað, eina einkarekna klínískt vottaða rannsóknastofa landsins og markar stórt skref í uppbyggingu Arctic Therapeutics á sviði lífvísinda og heilbrigðistækni á Norðurlandi.

Umfangsmikil lyfjaþróun og framleiðsla

Akureyringurinn Hákon Hákonarson, for­stjóri erfðarann­sóknamiðstöðvar Barna­há­skóla­sjúkra­húss­ins í Fíla­delfíu í Bandaríkjunum, stofnaði Arctic Therapeutics fyrir áratug, stefnt er að umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu og þegar eru fimm lyf í þróun hjá fyrirtækinu.

„Þessi rannsóknastofa uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til klínískra rannsókna og gegnir lykilhlutverki í lyfjaþróun okkar. Hún mun nýtast bæði við undirbúning og framkvæmd rannsókna, auk sértækra prófa og framleiðslu mikilvægra stoðgagna,“ sagði Ívar Hákonarson, sonur stofnandans og framkvæmdastjóri Arctic Therapeutics, í ávarpi þegar opnun rannsóknarstofunnar var fagnað með viðburði í Messanum hjá DriftEA, þar sem saman komu fulltrúar nýsköpunarumhverfisins, samstarfsaðilar og velunnarar félagsins. 

Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir, starfsmaður Arctic Therapeutics, segir frá starfseminni sem mun fara fram á nýju rannsóknastofunni á Akureyri.

Akureyri veitir forskot

Þegar Ívar kynnti starfsemi félagsins, framtíðarsýn og mikilvægi þess að efla rannsóknastarf á Akureyri, lagði hann áherslu á að höfuðstöðvar Arctic Therapeutics yrðu áfram á Akureyri, ekki aðeins af tilfinningalegum ástæðum, heldur vegna þess forskots sem svæðið veitir. Hann nefndi þar öflugan mannauð, einstakan samstarfsanda og nálægð við lykilstofnanir á borð við Sjúkrahúsið á Akureyri og Háskólann á Akureyri, auk náins samstarfs við fyrirtæki eins og Pharmarctica á Grenivík. Ívar þakkaði sérstaklega Kaldbaki og DriftEA fyrir stuðning og samstarf, en Kaldbakur er meðal leiðandi fjárfesta.

Hákon Hákonarson, stofnandi Arctic Therapeutics, þegar opnun rannsóknastofunnar var fagnað í Messanum í DriftEA.

Erfðafræðilega upplýst lyfjaþróun

Hákon Hákonarson fjallaði í ræðu sinni um rannsókna- og þróunarstarf félagsins og þau tækifæri sem felast í erfðafræðilega upplýstri lyfjaþróun. Arctic Therapeutics er sprottið upp úr Center for Applied Genomics (CAG) við Barnaháskólasjúkrahúsið í Fíladelfíu, sem Hákon stofnaði og hefur byggt upp í eina stærstu mannerfðarannsóknarmiðstöð heims.

„Við erum með fimm lyf í þróun, öll byggð á erfðafræðilegum uppgötvunum sem miða að því að leiðrétta undirliggjandi orsakir sjúkdóma,“ sagði Hákon. Fyrsta lyfið er gegn afar sjaldgæfum íslensku arfgengum sjúkdómi sem veldur heilablæðingum og heilabilun á unga aldri.

Fram kom á kynningunni að félagið sjái tækifæri í þróun lausna á sviði fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu, snemmgreiningar krabbameina og annarra sjúkdóma, meðal annars í samstarfi við leiðandi alþjóðlegar stofnanir.

Gestir við opnunina fengu einnig að kynna sér nýju rannsóknarstofuna, þar sem Olga Ýr Björgvinsdóttir, forstöðumaður hennar og teymi veittu innsýn í starfsemina.

Opið bréf til samgönguráðherra

Sigrún Gísladóttir skrifar
16. desember 2025 | kl. 21:00

Treystir Viðreisn þjóðinni í raun?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. desember 2025 | kl. 10:00

Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. desember 2025 | kl. 11:30

Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi

Benedikt Sigurðarson skrifar
12. desember 2025 | kl. 08:00

Innflytjendur, samningar og staðreyndir

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 06:00

Húsnæðisbóla

Benedikt Sigurðarson skrifar
11. desember 2025 | kl. 10:00