Fara í efni
Umræðan

Nokkur orð um sorg

Séra Jóhanna Gísladóttir, prestur í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli, flutti eftirfarandi ræðu við messu í Akureyrarkirkju í morgun. Tilefnið er allra heilagra messa, sem jafnan er á fyrsta sunnudegi nóvembermánaðar; minningardagur um allar látnar sálir. Séra Jóhanna veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta ræðuna._ _ _

„Það er engin leið að undirbúa sig fyrir ástvinamissi. Því að þegar, og ef það gerist sem þú kvíðir mest, þá gerist það í núinu. Og núið er eini staðurinn þar sem hægt er að takast á við áfallið. Einungis þar er hægt að setja annan fótinn fram fyrir hinn og taka daginn skref fyrir skref. Glíma við eitt í senn, það sem er fyrir framan mann, og leyfa morgundeginum að eiga sig.“

Þessa visku mælti Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur í viðtali nokkrum árum eftir ótímabært andlát eiginmanns hennar og var svar hennar við spurningu þess efnis hvort þau hjónin hefðu getað undirbúið sig á einhvern hátt fyrir hið óhjákvæmilega, eftir að maðurinn hennar var greindur með ólæknandi krabbamein.

Svar hennar er upplifun margra sem hafa staðið í sömu sporum, vitneskjan um komandi andlát auðveldar lítið ferlið sem framundan er. Við upplifum öll missi sem andlegt áfall, sama hvernig missirinn á sér stað, og langflest erum við tilneydd einhvern tímann á ævinni til að ganga í gegnum þetta ferli, mörg oftar en einu sinni.

Í lútherskri trú er allra heilagra messa minningardagur hinna heilögu í okkar lífum, þeirra sem stóðu okkur nærri og voru okkur ómissandi í lifanda lífi. Þessi tími er mikilvægur, hann krefst þess af okkur að við stöldrum við til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs og um leið horfum við inn á við, horfumst í augu við í eigin líðan þá og nú.

Í tilefni dagsins langar mig að ræða um sorgarferlið sem hefst eftir útför, það er að segja hvað gerist þegar hversdagsleikinn tekur við að nýju eftir missi. Þegar lífið heldur áfram hjá öllum, nema hinum syrgjandi. Oft er það ekki fyrr einhverjum vikum, jafnvel mánuðum eftir andlát ástvinar, sem hið raunverulega sorgartímabil hefst.

Íslenskt samfélag gefur afar lítið rými fyrir syrgjendur til að „vera úr leik“ lengur en í örfáa daga eða nokkrar vikur hið mesta. Jafnvel þau sem missa maka eða barn upplifa mörg þrýsting frá samfélaginu að verða sem fyrst fullir þátttakendur í því á nýjan leik. Sorgin þarf hins vegar að fá sinn tíma og þau sem ómeðvitað reyna að dempa vanlíðan sína, byrgja fyrir slæma líðan því hún er svo óþægileg, þau eru oftast mun lengur að jafna sig en þau sem leyfa sér einmitt að syrgja og takast á við missinn.

Og þessi þrýstingur að verða sjálfum okkur lík hið fyrsta er ekki síður innra með okkur. Við fáum samviskubit yfir því að missa úr vinnu eða að vinnan okkar lendi á öðrum, við viljum sýnast sterk í augum barnanna okkar og þráum ekkert heitar en að geta hrist af okkur doðann og vanlíðanina. En við erum mjög misvel í stakk búin að takast á við sársauka og breytingar. Þar spilar líka fyrri lífsreynsla stórt hlutverk og getur bæði stutt við okkur eða þvælst fyrir, allt eftir því hvers lags hún er.

Staðreynd málsins er hins vegar að sú að syrgjandi manneskja er mjög lengi að ná upp fullri starfsorku á nýjan leik, hún upplifir í mörgum tilfellum mikla andlega og líkamleg þreytu, hún hefur meiri þörf fyrir hvíld og svefn og minna þol fyrir áreiti og streitu. Þetta á sérstaklega við um þá syrgjendur sem missa ástvin eftir langvinn veikindi. Oft er fólk nokkur ár að jafna sig eftir að hafa annast um veikan fjölskyldumeðlim fyrir andlát hans.

Önnur sorgareinkenni sem geta birst löngu eftir andlát og útför eru kvillar eins og svefnleysi, óútskýrðir verkir eða gigtareinkenni og svo auðvitað blessaður kvíðinn. Sum fara að óttast um heilsu annarra fjölskyldumeðlima eða eigin heilsu. Sá kvíði er mjög algengur, sérstaklega hjá ungu fólki en félagskvíði er líklegri til að hrjá þau sem eldri eru. Hjá sumum hverfur allt frumkvæði. Og jafnvel þau sem voru mjög félagslynd áður geta átt erfitt með að taka upp tólið og hringja í vin eða drífa sig af stað í saumaklúbbinn eða á Lionsfund. Þessi félagskvíði getur ágerst ef viðkomandi gerir sér ekki fyllilega grein fyrir honum og tekur á honum með markvissum hætti.

En hvað getum við gert til að styðja við þau í kringum okkur sem eru að upplifa sorg eftir missi ástvinar?

Það undrameðal sem við þörfnumst öll hve mest á sorgartíma, er nærvera einhvers sem ber umhyggju fyrir okkur. Virk hlustun einhvers sem við treystum og að vera í kærleiksríkum samskiptum með reglubundnum hætti.

Eða með öðrum orðum, að hafa þau sem okkur þykir vænst um nálægt okkur styrkir okkur mest á erfiðum tímum. Og ekki einungis fyrstu dagana heldur til lengri tíma. Þetta sýna allar rannsóknir og þetta þekkjum við flest.

Stundum eru ættingjar og vinir hikandi, vita ekki alveg hvernig þau geta sýnt stuðning í verki, finnst þau ekki eiga réttu orðin í fórum sínum eða nægilega góð ráð því þau hafa kannski ekki upplifað það sama og hinn syrgjandi.

En það er ekki það sem við segjum sem skiptir öllu máli, eða hvað við vitum. Heldur er mikilvægast að vera til staðar, jafnvel þó það sé í þögn.

Það er nefnilega Í gegnum erfið tímabil í lífum okkar sem við finnum hvað vináttan er dýrmæt og beinlínis bætir heilsu og geð. Vissulega erum við prestarnir til að staðar og reynum að viðhalda tengslum við syrgjendur eftir andlát. Og sömuleiðis er sálfræðingar og annað fagfólk svo sannarlega gagnlegt þeim sem eru til dæmis að takast á við vanmátt og kvíða eftir andlát. En kærleiksríkt nærsamfélag er það sem gerir gæfumuninn og það sem gagnast mest til lengri tíma.

Sorg er ekki línulaga, hún minnkar ekki með reglubundnum hætti eftir því sem tíminn líður heldur mætti fremur líkja henni við sjávarfall. Hún getur virkað fjarlæg um stund en skellur svo á viðkomandi eins og alda án þess að hann geti rönd við reist.

Til að nefna dæmi úr eigin lífi þá lést föðuramma mín fyrir níu árum síðan. Hún var mér mér nánast sem foreldri og hafði til dæmis alltaf verið með mér á aðfangadagskvöld. Ég kveið því fyrstu jólunum án hennar sem vissulega voru heldur dapurleg en við var að búast. En það sem reyndi raunverulega á, og kom mér mest á óvart, var að sjö árum eftir að hún deyr eignast ég mitt fjórða barn. Og eftir fæðinguna fylltist ég gífurlegri sorg að eiga ekki ömmu að lengur. Það var enginn sem hringdi í mig daglega fyrstu vikurnar til að spyrja hvernig barnið hefði sofið um nóttina og enginn til að segja mér í hundraðasta sinn sögur af því hvað ég sjálf hefði verið óvært ungbarn. Ég hafði engan veginn séð fyrir að þetta yrði mér svona erfitt því það var svo langt síðan amma dó, en einmitt svona er sorgin. Hún hverfur aldrei alveg en verður vissulega viðráðanlegri með tímanum.

Í lokin leyfi ég mér að staðhæfa að það er helber misskilningur og nánast villandi sú gamla mýta að tíminn lækni öll sár. Sárin gróa vissulega með tíð og tíma en mörg skilja eftir sig djúp ör sem verða hluti af tilvist okkar það sem eftir er. Þessi ör þurfa ekki að vera okkur fjötur um fót, síður en svo, en þau eru sýnileg í þeim skilningi að við erum breyttar manneskjur á vissan hátt eftir missi.

Í leyfi mér að vitna í Jóhannes Páls páfa nú í lokin. Fjögur orð sem hann notaði svo oft í predikunum á sorgarstundum þegar hann sjálfur upplifði Guð víðsfjarri. „Trúum, vonum og elskum. Það er það eina sem er í okkar valdi að gera.“

Guð gefi okkur að finna áþreifanlega fyrir blíðri nærveru sinni á sorgtímum lífsins og tækifæri til að standa þétt við hlið fólksins okkar þegar þau þarfnast okkar. Amen.

Jóhanna Gísladóttir er prestur í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15